138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nokkuð langt er síðan menn fóru að velta því fyrir sér á Alþingi hvort ekki væri ástæða til að reyna að styðja betur við uppbyggingu á skeldýrarækt hér við land. Ég held að það hafi verið árið 1999 sem Alþingi samþykkti þingsályktun í þessa veru sem hv. þáverandi þingmaður Karl V. Matthíasson var 1. flutningsmaður að. Þingsályktunin fól í sér stefnumörkun að því leytinu að hvatt var til þess að stutt yrði við bakið á slíkri starfsemi og reynt að marka henni ákveðinn ramma þannig að hún gæti dafnað. Segja má að alveg frá þeim tíma og raunar fyrr hafi Alþingi verið að huga að þessum málum með einhverjum hætti. Við sjáum það t.d. ef við lesum fjárlögin að öðru hvoru skaut upp kollinum einhverri fjárveitingu til skeldýraræktar, sérstaklega kræklingaræktar, til að styðja við bakið á henni og það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé vel gert.

Hins vegar voru mjög skiptar skoðanir um það hvort kræklingarækt ætti nokkurn rétt á sér hér á landi. Ýmsir héldu því fram að kræklingarækt hentaði ekki hér og það væri því um tómt mál að tala að leggja fjármuni í þá atvinnugrein vegna þess að hún mundi ekki skila tilætluðum árangri. Auðvitað voru skiptar skoðanir um þetta og mjög margir reyndu fyrir sér í sambandi við kræklingaræktina. Við þekkjum heilmikla sögu um það að menn hafa lagt bæði fjármuni og mikla vinnu í að byggja upp kræklingarækt en árangurinn hefur verið mjög misjafn.

Ég nefndi áðan að það hafi verið 1999 sem Alþingi samþykkti slíka ályktun. Þá höfðu menn þegar hafist handa við einhverja kræklingarækt hér á landi en engu að síður er staðan því miður sú núna að framleiðsla á kræklingum er mjög lítil hér við land. Okkur hefur með öðrum orðum miðað ákaflega hægt áfram í því að byggja upp þessa atvinnugrein. Ég ákvað það í minni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja á laggirnar starfshóp sem skipaður var fulltrúum bæði hagsmunaaðila, vísindamanna og fleiri til að fara yfir þessi mál. Sú nefnd var undir forustu Hauks Oddssonar framkvæmdastjóra sem þá hafði þegar haslað sér völl í kræklingarækt ásamt félögum sínum á Vestfjörðum. Verkefni nefndarinnar var að reyna að búa til einhverjar hugmyndir um þetta, í fyrsta lagi að leggja mat á það hvort þessi atvinnugrein ætti framtíð fyrir sér hér við land og í öðru lagi að marka einhverja stefnu um það með hvaða hætti ríkið ætti að koma að því að styðja við bakið á þessari atvinnugrein.

Mér fannst það mikið fagnaðarefni þegar nefndin skilaði áliti sínu 2. júní 2008 að hún lagði til mjög markvissar tillögur, mjög vel framkvæmanlegar tillögur. Í því var dálítil nýbreytni fólgin að þetta voru ekki tillögur um að gera út á ríkissjóð heldur voru þetta fyrst og fremst tillögur um að búa til almennt gott umhverfi fyrir þessa atvinnugrein þannig að hún gæti eflst og dafnað. Ég hrinti þegar í framkvæmd nokkrum efnisatriðum þessarar stefnumótunar svo sem eins og það að stofna þann samráðshóp sem hefur unnið það frumvarp sem hér liggur fyrir og vitnað er til í athugasemdum sem því fylgja. Enn fremur óskaði ég eftir því við þar til bærar stofnanir að þær settu á vöktun með þeim svæðum við landið þar sem kræklingarækt gæti farið fram og færi fram. Að öðru leyti var kveðið á um það í tillögu nefndarinnar að fara ætti fram samhliða heilnæmiskönnun ræktunarsvæða mat á tíðni eitraðra svifþörunga á svæðinu og síðan var hvatt til þess að nefnd sem fjallar um skipulag strandsvæða Íslandi ljúki störfum. Það hefur auðvitað skírskotun til þeirrar umræðu sem hefur farið fram um skipulagsþátt þessa frumvarps sem ég ætla hins vegar að koma aðeins að á eftir.

Kveðið var á um að mælingar á þörungaeitri og kadmíum, þ.e. vöktunin, verði fjármagnaðar úr ríkissjóði fyrst um sinn og það er auðvitað eðlilegt. Það er bara verið að gera það með sama hætti og við leggjum peninga til alls konar vísindastarfs sem lýtur að grunngerð atvinnulífsins og það er auðvitað mjög skynsamlegt. Síðan var lagt til að það yrði skoðað sérstaklega á vegum hins opinbera hvaða flutningsleiðir væru hagkvæmar fyrir ferskan krækling á Evrópumarkað. Mér er ekki kunnugt um hver niðurstaða þeirrar vinnu var en henni var alla vega hrundið af stað á sínum tíma.

Það sem mér finnst máli skipta í starfi nefndarinnar til viðbótar við þetta er að því er slegið föstu, eftir að hafa verið skoðað af þessum aðilum sem höfðu sérfræðiþekkingu á þessum sviðum, að nefndin telur að hægt sé að byggja upp samkeppnishæfa kræklingarækt hér á landi. Þetta var ekki gert yfirborðslega heldur að mjög vel athuguðu máli. Og þetta tel ég að sé heilmikil vísbending um að við eigum þarna heilmikla möguleika.

Í skýrslunni er vakin athygli á því að þegar hafi níu aðilar leyfi til að stunda kræklingarækt hér á landi og þeim hefur sjálfsagt fjölgað eitthvað frá þessum tíma. Það er því ljóst að það er gríðarlegur áhugi á þessu. Sagan hefur verið heilmiklum þyrnum stráð. Menn hafa verið að reka sig á alls konar mistök og mér hefur stundum fundist að menn hafi því miður lært allt of lítið af þeim mistökum. Þess vegna tel ég að skýrslan hafi verið liður í því að menn áttuðu sig betur á hvar tækifærin væru og hvað þeir þyrftu sérstaklega að varast.

Menn vísuðu auðvitað mjög til þess í umræðunni áður og fyrr að það væri mikil og blómleg kræklingarækt annars staðar, t.d. í strjálbýlli héruðum við austurströnd Kanada, og þangað hafa menn m.a. sótt þekkingu sem og til Skotlands og víðar. Það er engin ástæða til að ætla annað en að við getum farið nokkuð svipaða slóð. — Er hæstv. ráðherra ekki nærstaddur? (Gripið fram í: Nei, hann er ekki á svæðinu.)

Þá vík ég máli mín að öðru en ég ætla síðan að spyrja hæstv. ráðherra aðeins áfram út í þetta mál. Það er alla vega ljóst að menn sjá ýmis tækifæri í þessari ræktun og það er auðvitað sjálfsagt að reyna að fylgja því eftir.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því sem hér hefur verið sagt um skipulagsþáttinn. Greinilegt er af því sem komið hefur fram hérna að mikil andstaða er við þá leið sem verið er að fara í frumvarpinu hvað varðar skipulagsþáttinn. Þetta er mál sem nefndin hlýtur auðvitað að kafa mjög ofan í og er greinilegt að ef málið gengur fram svona mun það mæta andstöðu í þinginu og augljóslega líka meðal sveitarstjórnarmanna. Í því sambandi vil ég segja það — og mér finnst þetta, virðulegi forseti, eiginlega ekki boðlegt. Hæstv. ráðherra er ekki viðstaddur þegar umræðan fer fram og ég er m.a. að fara yfir efnisatriði sem ekki hafa komið fram í umræðunni áður.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hefur kannað hvað dvelur ráðherrann. Hann brá sér aðeins fram á snyrtingu.)

Það skal að sjálfsögðu fyrirgefið. En að öðru leyti vil ég segja um þessi mál að það þarf að fara vel yfir þetta allt saman. Varðandi skipulagsþáttinn vek ég athygli á því að nýting hafsvæða okkar, sérstaklega grunnslóðarinnar, hefur verið að breytast á undanförnum árum. Það er ekki lengur svo að það sé bara um að ræða fiskveiðar við ströndina. Við þekkjum það að mikið fiskeldi fer fram víða um land og núna er hafin kræklingarækt a.m.k. á 10 stöðum við landið. Hafin er nýting á hafsbotninum, kalkþörungarnir í Arnarfirði eru dæmi um það, og menn hafa sýnt þessu áhuga víðar, í Ísafjarðardjúpi og í Miðfirðinum. Það fer fram sjóstangveiði sem er vaxandi þáttur ferðaþjónustunnar. Með öðrum orðum, þessi nýting er orðin miklu flóknari en áður og þess vegna hefur komið upp það sjónarmið að fara þurfi fram heildstætt skipulag á hafsvæðunum næst landi.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur verið í fararbroddi með það að fitja upp á nýrri nálgun í þessum efnum sem er í raun og veru allt önnur en sú sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir. Þeir vilja skoða þetta heildstætt og telja eðlilegast að sá þáttur málsins sé í höndum sveitarfélaganna, ekki aðeins sem umsagnaraðila eins og hér hefur verið kallað eftir, heldur komi sveitarfélögin að málinu með miklu meira afgerandi hætti. Fjórðungssambandið hefur t.d. farið fram á að farið verði í sérstakt tilraunaverkefni í Arnarfirði þar sem nú þegar fara náttúrlega fram fiskveiðar, rækjuveiðar, kalkþörunganýting, kræklingaeldi, fiskeldi er í bígerð og raunar aðeins hafið. Það gerir það að verkum að heilmikil rök hljóta að hníga að því að nærumhverfið þ.e. sveitarfélögin, hafi möguleika á því að fara með þetta skipulagslega vald. Mér sýnist hins vegar af þessu frumvarpi að þar sé fetuð slóð í þveröfuga átt og þess vegna hljótum við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að fara yfir þessa hluti alveg sérstaklega. Ég ætla í sjálfu sér ekki að slá neinu föstu um þetta. Mér finnst hins vegar augljóst að hin stjórnsýslulega aðkoma sveitarfélaga þarf að vera miklu ákveðnari en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég vek athygli á því, eins og kom raunar fram í ræðu áðan, að í lögunum um fiskeldi er þetta miklu skýrara og ég vek sérstaka athygli á því í því sambandi að það var fyrir atbeina Alþingis á sínum tíma, sjávarútvegsnefndar Alþingis, að stjórnsýsluleg staða sveitarfélaganna var styrkt heilmikið frá því sem hún hafði verið upphaflega í því frumvarpi sem þá var lagt fram og varð síðan að lögum.

Af því að ég nefndi almennt uppbyggingu skeldýraræktarinnar og kræklingaræktarinnar sérstaklega, vil ég nefna það sem ég hef áður vakið máls á á Alþingi og það er að fjármögnunarvandi í kræklingaræktinni er heilmikill. Kræklingaræktin er mjög óviss, menn hafa ekki sögu um framleiðsluna og lánardrottnar og bankar hafa verið feimnir við að lána til starfseminnar. Menn hafa lagt heilmikið eigið fé í hana, sem er auðvitað af hinu góða, en hins vegar er ljóst að ef þessi atvinnugrein á að dafna þurfa að koma til virkir aðilar. Ég tel langnærtækast að Byggðastofnun fái það verkefni af hálfu stjórnvalda að styðja við uppbyggingu hennar, fái það verkefni að koma að fjármögnun á kræklingafyrirtækjum, skelræktarfyrirtækjum, til að þau komist á koppinn. Ekki er við því að búast að menn geti endalaust lagt fram fjármuni af eigin fé í svona starfsemi. Öll slík starfsemi er að einhverju leyti rekin með lánsfé og fjárfesting sem þarf að eiga sér stað í tækjum og búnaði, bátum, veiðarfærum og ég tala nú ekki um úrvinnslugræjum, kallar á fjármögnun sem hætt er við að verði mjög dýr nema að þessu komi stofnun eins og Byggðastofnun. Ég hvet hæstv. ráðherra, eins og ég hef gert áður, til að beita sér í þágu þessarar atvinnuuppbyggingar og fyrir því að Byggðastofnun komi að henni. Hún hefur verið styrkt sérstaklega eins og við vitum með því að létta af henni skuldum og þess vegna getur þetta skipt miklu máli.

Virðulegi forseti. Það er eitt atriði sem mig langar sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra um. Í athugasemdum við frumvarpið velta menn fyrir sér með hvaða hætti búa ætti til þann lagalega ramma sem verið er að gera með frumvarpinu. Í hinum almenna athugasemdakafla segir að það hafi verið álitamál hvort setja ætti sérstök lög um skeldýrarækt eða breyta eldri lögum um svipað efni, t.d. lögum um fiskeldi og fiskirækt, til þess að þau gætu gilt um kræklingaeldi eða kræklingarækt. Síðan er því slegið föstu að sú leið hafi verið farin í þessu frumvarpi, eins og blasir auðvitað við, að sett skuli sérstök lög um skeldýrarækt sem þá muni einnig gilda um kræklingarækt. Því er í raun og veru ekki svarað af hverju þessi leið var farin, af hverju ekki var talið jafngott eða betra að breyta eldri lögum sem ég nefndi áðan. Ég hef í sjálfu sér ekki neina sérstaka skoðun á því en það væri fróðlegt fyrir okkur svona fyrir umræðuna að gera okkur grein fyrir hver væru þá rökin fyrir því að þessi leið var farin. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra: Hver voru rökin á bak við það að fara þá leið sem hér er farin?

Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja þetta miklu meira, virðulegi forseti, tími minn er líka að verða búinn. Það skiptir miklu máli að um þetta sé sett góð lagaleg umgjörð. Menn telja að miklir möguleikar séu í kræklingaræktinni og hún þarf auðvitað lagalega umgjörð, satt er það. Hún þarf ákveðinn stuðning sem grunnurinn hefur verið lagður að með skýrslu nefndarinnar sem ég rakti og skilaði áliti sínu 2. júní 2008. Og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé verið að vinna í meginatriðum eftir þeim tillögum sem þar voru lagðar fram og ég gerði stuttlega grein fyrir áðan.

Í þriðja lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra og inna hann eftir því hver sé afstaða hans til þess sem ég nefndi að koma þurfi fjárhagsleg fyrirgreiðsla í formi lánsfjár frá Byggðastofnun, sem ég tel langnærtækast í þessu sambandi, til að þessi atvinnugrein geti náð einhverju flugi. Ég ítreka það að ég er sammála niðurstöðu skýrslunnar sem ég hef verið að vitna hér til um að kræklingaræktin á mikla framtíð fyrir sér. Því miður hefur þróunarvinnan gengið allt of hægt, við þurfum á því að halda núna að hægt sé að spýta í. En þá þarf lagaumhverfið að vera skýrt, þá mega menn ekki hafa einhverjar skipulagsflækjur sem þvælast fyrir þeim, og þá verður auðvitað fjármögnunin að vera tryggð þannig að menn geti komið á eðlilegum bankaviðskiptum og fengið eðlilega lánafyrirgreiðslu til að geta farið í þær fjárfestingar sem eru nauðsynlegar.