138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá umræðu sem hér hefur verið og lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Það er mjög mikilvægt að setja þessari atvinnugrein skýran lagaramma og umhverfi til að vinna í og vil ég þakka ráðherra fyrir það.

Ég ætla ekki að eyða mjög löngum tíma í þetta, það er búið að fara ágætlega yfir helstu atriðin sem vert er að gagnrýna í þessu frumvarpi eða vara við skulum við frekar orða það. Þetta er vitanlega 1. umr. þannig að málið fer til meðferðar í nefnd. En þeir þættir sem hafa verið nefndir varða það sem snýr að sveitarfélögunum, það skipulagsvald og annað sem þeim ber með lögum og þá árekstra sem virðast vera við önnur lög eða frumvörp sem hafa verið lögð fram.

Ég vil þó bæta við því sem kom aðeins til tals í fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra fyrir nokkrum dögum, en þá ræddum við einmitt skeldýrarækt, og það er vöktun á þeim svæðum þar sem álitlegt er að setja niður spotta eða koma af stað rækt. Ég hef áhyggjur af því að fjármuni eða mannskap til að fylgjast með lífríkinu vanti þannig að þegar lirfan er tilbúin sé hægt að setja niður spottana, undirbúa ræktina. Ég held að mjög mikilvægt sé að ráðherra beiti sér fyrir því að fjármagn verði sett í þetta eða þeir aðilar sem hyggjast fara í þessa kræklingarækt verði aðstoðaðir með einhverjum hætti því að kostnaður þeirra er vitanlega mjög mikill og samkvæmt frumvarpinu er ljóst að kostnaðarauki verður töluverður af leyfisgjöldum og slíku og eins varðandi heilnæmiskönnunina, sem ég ætla að koma örlítið að á eftir. Ég held að mjög mikilvægt sé að ráðherra skoði vandlega hvort framkvæmdarvaldið geti komið að þessari vöktun á lífríkinu þannig að menn séu ekki að missa af eða tapa tækifærum til að fara af stað með ræktina. Þessir aðilar sinna þessu meira og minna sjálfir í dag og gera það vitanlega eftir bestu getu og eins og þeir hafa ráð á en þetta er að sjálfsögðu einn af lykilþáttum þess að halda áfram með þetta verkefni.

Hitt sem mig langar til að nefna er heilnæmiskönnunin sem gert er ráð fyrir að leyfishafinn láti framkvæma. Ég tek undir það sem kom fram áðan að ekki er alveg ljóst hvað orðið heilnæmiskönnun þýðir í þessu sambandi, ég átta mig ekki alveg á því, þannig að nauðsynlegt er að útskýra það og ég geri ráð fyrir því að nefndin muni taka það að sér.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hefur verið sagt hér um skipulagsmálin og það sem snýr að sveitarfélögunum. Þetta frumvarp ber þess merki að verið er að setja lög um þessa atvinnugrein í fyrsta sinn, sérlög, og ljóst að gert er ráð fyrir því að ráðherra hafi töluvert mikið vald en það kann vitanlega að breytast í meðförum nefndarinnar. Ég fagna því, frú forseti, að frumvarpið sé komið fram og vil nota tækifærið og hvetja ráðherra til að huga sérstaklega að rannsóknum, beita sér fyrir auknu fé til rannsókna í kræklingarækt, beita sér fyrir því að ræktendur fái aðstoð við vöktun á lífríkinu og sjá til þess að ekki verði sett yfir þá holskefla af nýjum leyfisgjöldum og öðru slíku.