138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

hvalir.

590. mál
[21:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um hvali, sem er 590. mál þingsins á þskj. 981.

Hinn 10. mars 1999 ályktaði Alþingi að hefja skyldi hvalveiðar hið fyrsta hér við land. Í kjölfar þeirrar ályktunar voru ýmis skref stigin í átt að þessu markmiði. Ber þar að nefna m.a. kynningu á málstað Íslands erlendis, endurinngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið, virka þátttöku innan Alþjóðahvalveiðiráðsins við tilraunir til að koma þar á stjórnkerfi fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni sem og málflutning á vettvangi samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, virka þátttöku innan Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins og viðamiklar talningar á hvalastofnum og framkvæmd hrefnuhluta vísindaáætlunar Hafrannsóknastofnunarinnar. Það var síðan 17. október 2006 sem þáverandi sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir á Alþingi að atvinnuveiðar á hrefnu og langreyði mundu hefjast að nýju hér við land eftir tuttugu og eins árs hlé.

Í febrúar 2009 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nefnd til að gera tillögur að endurskoðun laga um hvalveiðar, nr. 26/1949. Í skipunarbréfinu sagði að lögin bæru sterk kennimerki liðins tíma og þörfnuðust endurskoðunar með hliðsjón af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Var nefndinni ætlað að hafa hliðsjón af öðrum lögum um nýtingu sjávarauðlinda í því skyni að tryggt yrði, eftir því sem kostur væri, að samræmis og jafnræðis væri gætt við framkvæmd laganna. Í samræmi við skipunarbréf sitt endurskoðaði nefndin lög nr. 26/1949, um hvalveiðar, og skilaði af sér frumvarpi til nýrra laga um það efni sem var síðan lagt fram á 137. löggjafarþingi 2009. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju að mestu óbreytt. Þó hafa nokkrar breytingar verið gerðar, m.a. með hliðsjón af umsögnum sem bárust til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á 137. löggjafarþingi.

Frumvarpið byggir á þeirri meginforsendu að ef hvalveiðar verði stundaðar hér við land verði það gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Það er á valdi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hvalveiðar verða stundaðar og í hve miklum mæli. Hafrannsóknastofnun gerir tillögur til ráðherra um veiðiþol hvalastofna til tveggja ára í senn.

Ráðherra kynnir þessar tillögur á forsendum þeirra og gefur þeim sem það kjósa frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri vegna þeirra. Að þeim fresti liðnum tekur ráðherra ákvörðun um hvaða tegundir hvala skuli veiða og hve marga af hverri tegund. Þetta gefur ráðherra færi á að taka tillit til rökstuddra athugasemda um hagsmunaárekstra við aðrar atvinnugreinar, svo sem hvalaskoðun.

Þegar fyrir liggur hvort veiða megi hvali á sjálfbæran hátt og þá hvaða hvali megi veiða og hve marga af einstökum tegundum tekur ráðherra ákvörðun um það með hvaða hætti þeim veiðum er stjórnað. Hann getur valið milli aðferða í því efni samkvæmt frumvarpinu. Heimilt væri honum að skipta leyfilegum fjölda dýra eða hluta þeirra á milli skipa og við það taka mið af t.d. reynslu þeirra eða stærð. Hann gæti einnig ákveðið að veiðar skyldu frjálsar uns tiltekinn heildarfjöldi dýra væri veiddur eða ákveðið að takmarka fjölda veiddra hvala á tilteknum tíma. Þá eru í frumvarpinu ýmis ákvæði sem lúta að skilyrðum fyrir veitingu leyfa til hvalveiða en gert er ráð fyrir að mun ítarlegar verði kveðið á um þau í reglugerðum.

Auk þess sem frumvarpið opnar víðtæka möguleika við stjórn hvalveiða og eftirlit með þeim til að tryggja mannúðlega aflífun þá eru ákvæði í frumvarpinu sem tryggja eiga að fullkomnum veiðitækjum sé beitt og að aðilar sem veiðarnar stundi hafi sjálfir unnið við meðferð veiðitækja. Að lokum má nefna að ráðherra hefur heimildir til að binda hvalveiðar við ákveðin svæði, m.a. í því skyni að tryggja að þær trufli ekki hvalaskoðun.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjals með því sem hefur að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Ég legg til, frú forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.