138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

hvalir.

590. mál
[21:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja fram frumvarp um hvalveiðar. (Sjútvrh.: Um hvali.) Um hvali, og veiðar og nýtingu á þeirri merkilegu sjávarauðlind okkar. Eins og mörg frumvörp hæstv. sjávarútvegsráðherra ber þetta frumvarp sterkan keim af því að ráðherra vill hafa puttana ansi mikið í allri ákvarðanatöku þrátt fyrir að Alþingi sé að setja lagaramma utan um starfsemina. Hér eru fjölmörg atriði þar sem segja má að við séum í raun ekki að gera annað en setja lög um ráðherraræði eða um víðtækar heimildir til ráðherra til að eiga við þessi mál og sýsla með þau í framhaldinu.

Ef ég fjalla aðeins um einstakar greinar frumvarpsins blasir þetta við okkur, t.d. í 3. gr. þar sem segir m.a. í síðustu málsgreininni: „Jafnframt setur ráðherra reglur um hámarksnýtingu hvals.“ Ég átta mig ekki alveg á af hverju þarf að vera með slíkt ákvæði í lögum. Það hlýtur að vera markmið hjá hverjum og einum sem stundar veiðar að ætla að ná sem mestri arðsemi út úr sínum veiðum. Þetta er dæmi um það sem er svolítið gegnumgangandi í frumvarpinu, það er svona sá tónn í því að verið sé að setja eins miklar takmarkanir á þessa atvinnugrein og hægt er. Í stað þess að láta lagafrumvarpið snúast um eðlilega þætti og að í því sé ákveðin hvatning til að efla atvinnugreinina ber frumvarpið allan keim af því að það sé til þess að rýra og draga úr vilja manna og getu til að stunda þessa grein almennilega.

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við það að ráðherra skuli vera farinn úr salnum þegar umræða um þetta mál hefst. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann hverfur úr salnum. Við fengum þá skýringu áðan að hann hefði þurft að bregða sér á snyrtinguna og það er virðingarvert en ég vona að blessaður maðurinn sé ekki með í maganum. Ef svo er held ég að við ættum kannski að fresta umræðu. En ég óska eftir því að ráðherra verði í salnum til að hlusta á umræðuna.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Ég var bara, virðulegi forseti, að fara yfir það sem gefið var sem skýring áðan og talaði bara íslensku í þeim efnum, en ráðherra er kominn og ég fagna því. Ég vil hvetja hann til að …

(Forseti (ÞBack): Hæstv. ráðherra er í hliðarsal og er kominn inn í sal.)

Ég ítreka það sem ég sagði að mér finnst frumvarpið allt bera svolítinn keim af því að frekar sé reynt að setja um þetta svo ströng skilyrði að það geri mönnum allt að því erfitt að starfa í greininni til einhvers tíma. Það vantar í raun ákvæði í þetta lagafrumvarp sem tekur af allan vafa um það að við sem þjóð ætlum að stunda hvalveiðar í framtíðinni. Það þyrfti auðvitað að vera grunntónninn í svona frumvarpi að þjóð ætli sér að stunda hvalveiðar. Við eigum okkur brothætta sögu á þessum vettvangi. Það hefur verið komið fram við þessa grein af mikilli óbilgirni í langan tíma, allt frá því að Alþjóðahvalveiðiráðið ákvað 1985 bann við hvalveiðum. Þeim lauk árið 1989 og fóru síðan af stað í litlum mæli árið 2003. Við höfum verið að byggja þetta upp hægt og bítandi og vonandi er þetta komið á það skrið að þetta mun halda áfram og verða öflug og góð atvinnugrein með allri þeirri atvinnusköpun sem því fylgir og verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið. Til að svo megi verða þurfum við að skapa þessari grein vinnuumhverfi sem hægt er að vinna í.

Í 6. gr. er dæmi um þetta sem mig langaði að ræða. Þar er talað um að ráðherra muni, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar um veiðiþol nytjahvala, taka ákvörðun um fyrirkomulag hvalveiðanna og kynna tillögur Hafrannsóknastofnunar og forsendur þeirra fyrir þeim sem vilja koma athugasemdum sínum á framfæri við ráðherra og veita þeim mánaðarfrest til þess. Veiðiþolið er metið til tveggja ára í senn og veiðarnar þá væntanlega gefnar út til tveggja ára í senn. Það gefur augaleið að enginn atvinnurekstur getur búið við það að hafa eingöngu starfsfrið til næstu tveggja ára. Það er alveg útilokað. Það hafa verið ákveðin átök um hvalveiðar og m.a. við ferðaþjónustuna. Þessi fyrirvari er kannski settur sérstaklega inn í lögin til að þeir aðilar geti komið athugasemdum sínum á framfæri. Um þetta hafa verið átök en það er kominn tími til að koma á friði, dæmin sýna okkur núna í hvalveiðum frá árinu 2003 að um þetta þarf ekki að standa sá styrr sem um þetta hefur staðið. Þessar atvinnugreinar geta starfað mjög vel saman og í raun geta hvalveiðar eflt og aukið mjög á áhuga á hvalaskoðun. Að því leyti held ég að mikilvægt sé að við séum ekki með slíkt fyrirkomulag að efna til einhverra óeirða nánast á hverju ári eða annað hvert ár þar sem tekist er á um þessi sjónarmið. Ég vil taka Norðmenn sem dæmi um þetta. Þeir tóku árið 1992 ákvörðun um að hefja hvalveiðar 1993. Þær hafa verið í gangi þar síðan. Um það er þverpólitísk samstaða og greinin vinnur í því umhverfi að þeir fá úthlutað kvóta á hverju ári og geta hafið sínar veiðar.

Í 6. gr. segir einnig:

„Þá ákveður ráðherra í reglugerð fyrirkomulag veiða á komandi veiðitímabili og getur hann m.a. ákveðið að skipta skuli þeim fjölda hvala, sem leyfilegt er að nýta úr hverri tegund á viðkomandi veiðitímabili, að hluta eða öllu leyti á einstök skip eða svæði. Við þá ákvörðun getur hann m.a. tekið mið af veiðireynslu, búnaði og stærð skips.“

Það er sem sagt algert útfærsluatriði hjá ráðherra hvernig hann úthlutar og hverjum hann úthlutar veiðileyfi og á hvaða forsendum. Í 6. gr. segir að hann geti m.a. tekið mið af þessum atriðum en ekki að hann sé bundinn af því að taka það á einhverjum grundvelli. Þetta getur þess vegna verið hentistefna eftir því hver er í ráðherrastól. Hérna komum við aftur að því að ekki er hægt að bjóða einhverri atvinnugrein upp á það að starfa undir slíkri óvissu. Eftirfarandi segir í athugasemdum við lagafrumvarpið sem tengist þessu einnig:

„Heimilt væri honum að skipta leyfilegum fjölda dýra eða hluta þeirra á milli skipa og við það taka mið af t.d. reynslu þeirra eða stærð.“ — Þ.e. reynslu skipanna og stærð þeirra. — „Hann gæti einnig ákveðið að veiðar skyldu frjálsar uns tiltekinn heildarfjöldi dýra væri veiddur eða ákveðið að takmarkanir yrðu á fjölda veiddra hvala á tilteknum tíma. Hafa ber í huga að hvalveiðar hafa ekki verið stundaðar með frjálsum hætti hér við land eins og fiskveiðar.“ — Eins og segir í athugasemdum þessum, með leyfi forseta, og segir hér áfram: „Þykir því ástæða til þess að setja um þessar veiðar almennar reglur þar sem allir þeir sem fullnægi tilteknum skilyrðum komi til greina við veitingu veiðileyfa.“

Hér er hreinlega hallað réttu máli, virðulegi forseti. Hvalveiðar eru sennilega fyrstu veiðarnar hér við land sem eru settar í kvóta, hér voru frjálsar veiðar þar til árið 1976 er Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti takmarkaðar veiðar á langreyði og þær voru settar í kvóta. Fram að því gátu menn farið út, hver sem vildi, og veitt eins mikið og þeir vildu. Það sama var gert við hrefnuna, það var sennilega í kringum 1978 sem hún var sett í kvóta. Þá byggðist kvóti okkar á þeirri veiðireynslu sem hrefnuveiðimenn höfðu byggt upp á undanförnum árum og áratugum. Hér er því hreinlega farið með rangt mál þegar talað er um að það hafi ekki verið frjálsar veiðar. Það voru frjálsar veiðar, þetta var sett í kvóta og kvótinn byggðist á veiðireynslu þessara aðila. Þeir komu sér síðan saman um skiptingu á þessum kvóta innbyrðis í hrefnunni þar sem fleiri voru að veiða. Þetta var einfaldara í stórhvalnum þar sem bara einn aðili var að veiðum en þessir aðilar komu sér saman um að skipta innbyrðis á milli sín þessum dýrum og gerðu það í samráði við ráðuneytið á sínum tíma. Ég held að hér þurfi að skoða málin. Við erum með nýlega ákvörðun ráðherra um það hvernig fara skuli með úthlutun á kvóta þar sem er í raun til staðar mjög stutt og skammvinn veiðireynsla en það er í makríl. Við höfum eingöngu 3–4 ára veiðireynslu í makríl en samt sem áður ákveður ráðherra það núna við úthlutun á makrílnum að byggja það sem mest á veiðireynslu.

Í þessu lagafrumvarpi er farið mjög frjálslega með það hvernig ráðherra geti haldið á málum og honum er í raun algerlega í sjálfsvald sett eftir hvaða reglum veiðileyfum verður úthlutað. Það er alveg ljóst að engin atvinnugrein og ekkert fyrirtæki getur búið við það að hafa svo skamman tíma til að spila úr varðandi sinn framtíðaratvinnurekstur. Þetta hefur í för með sér að menn geta ekki farið í nauðsynlegar fjárfestingar og uppbyggingu sem vissulega þarf í kringum þessa atvinnugrein alveg sérstaklega sem er að fara af stað núna af fullri alvöru eftir öll þessi ár.

Annað sem ber keim af miklu ráðherraræði og skyldum sem á að setja á þessa grein umfram það sem almennt getur talist kemur fram í 9. gr. þar sem segir:

„Eftirlitsaðilum Matvælastofnunar er heimill óhindraður aðgangur að þeim stöðum þar sem framleiðsla og/eða dreifing hvalaafurða á sér stað.“ — Þetta er í góðu lagi, en svo segir: „Jafnframt er eftirlitsaðilum Fiskistofu heimill aðgangur að öllum gögnum sem varða veiðar og vinnslu. Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum, er skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskistofu ókeypis í té allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara.“

Þetta er engin smáupptalning og mér er spurn: Tekur þetta yfir bankaleynd og annað? Þetta ber keim af því að leggja eigi stein í götu atvinnugreinarinnar.

Síðan er það 12. gr. sem fjallar um auðlindagjald. Verið er að setja það á. Það er ljóst að þeir sem voru í þessum atvinnurekstri hafa borið gríðarlegt tjón af því að hafa verið stoppaðir svona lengi. Þeir hafa þurft að halda við tækjabúnaði, skipum, vinnslustöðvum og öðru með ærnum tilkostnaði og það fyrsta sem við byrjum að gera þegar þeir loksins komast af stað er að leggja á auðlindagjald. Það getur vel verið að einhverjum finnist þetta ekki háar upphæðir en reynsluna höfum við þó núna af innanlandsmarkaði á hrefnu. Ljóst er að það er engin stór arðsemi af þeirri grein, í svona takmörkuðum veiðum og á svona takmörkuðum markaði, þannig að fyrir þá veit ég að þetta gjald er stór upphæð.

Svo er annað sem við verðum að minnast á — tími minn er að verða liðinn og ég vildi segja margt fleira — en gildistaka laganna er áætluð á þeim degi sem þau verða afgreidd á Alþingi og þá þurfa menn væntanlega að fara í það að sækja um öll leyfi aftur og fara í gegnum kerfið með allt saman eins og þetta lítur hér út. Þetta eru mjög þröng og ströng skilyrði og langur ferill og þeir þurfa væntanlega að gera það á miðri vertíð og verða væntanlega þá að stoppa á miðri vertíð. Ef þetta fer í gegn óbreytt eins og það liggur hér fyrir verða engar hvalveiðar í sumar. Það liggur alveg ljóst fyrir. (Forseti hringir.) Það fer enginn af stað á grundvelli þessa frumvarps.