138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

útlendingar.

585. mál
[21:30]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilað að setja með reglugerð nánari reglur um þátttöku Íslands í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á ytri landamærum Schengen-ríkjanna.

Nauðsynlegt getur verið að setja nánari reglur um hvernig samstarfi á grundvelli Schengen-samningsins skuli háttað í framkvæmd, þ.e. þegar slíkt samstarf kallar ekki á að gerðar séu breytingar á lögum. Ákvæðinu er jafnframt ætlað að festa í sessi það samstarf sem þegar hefur verið komið á fót á þessum vettvangi líkt og Landamærastofnun Evrópu og landamærasjóðinn.

Í öðru lagi er lagt til að fellt verði úr 11. og 15. gr. laganna að atvinnuleysisbætur sem og greiðslur úr almannatryggingum teljist ekki til tryggrar framfærslu við mat á því hvort skilyrði er fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis hér á landi. Er þessi breyting til samræmis við þau skilyrði sem sett eru til veitingar á íslenskum ríkisborgararétti skv. 9. gr. laga um ríkisborgararétt, nr. 100/1952.

Að endingu er lagt til í frumvarpinu að ákvörðun um brottvísun EES-borgara sem skráð hefur búsetu sína hér á landi í þjóðskrá verði ekki framkvæmanleg fyrr en ákvörðunin er endanleg. EES-útlendingar fá ekki lengur útgefið dvalarleyfi sér til handa við löglega dvöl í landinu en það felur í sér að þeir hafa ekki minni rétt en þeir sem hafa fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi. Þykir því rétt að um þessa aðila gildi sömu reglur.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.