138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ef ríkisstjórnin efnir loforð ráðherranna sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu AGS þarf tafarlaust að bregðast við og koma í veg fyrir að fólk verði borið út úr eignum sínum og að fasteignaverð lækki í kjölfarið. Það þarf að fara fram greining á aðstæðum þessa hóps sem nú er á leið í nauðungarsölu. Það þarf að kanna hvers vegna þessi hópur er kominn í það ferli að ekkert annað bíður fólks en nauðungarsala á húseign þess eða íbúð. Það þarf jafnframt að athuga hverjar þarfir þessa hóps eru varðandi framtíðarhúsnæði eins og t.d. hvort koma þurfi á sérstöku félagslegu leiguhúsnæði til að taka við því fólki sem mun missa húsnæði sitt í október.

Í þessum hópi fólks sem nú bíður eftir að fram fari nauðungarsala á húsnæði þess eru örugglega margir sem gáfust upp á að bíða eftir síðustu úrræðum stjórnvalda eins og t.d. félagslegri greiðsluaðlögun, en frumvarp þess efnis er nú til vinnslu í þinginu og verður vonandi samþykkt fyrir lok þings. Enn aðrir eru með allt of lágar tekjur til að geta staðið undir markaðsleigu og þá þarf að finna lausnir fyrir þann hóp ef koma á í veg fyrir að þetta fólk verði borið út, sem er óásættanlegt.

Það er orðið brýnt að við sem hér sitjum áttum okkur á reiði skuldara yfir því að endurreisa á samfélagið án þess að stökkbreyting lána verði leiðrétt. Frú forseti. Skuldarar hrópa á réttlæti, norrænt réttlæti. Það felst í því að gripið er til almennra aðgerða og síðan er skattkerfið notað til að taka frá þeim sem ekki þurfa á aðgerðunum að halda. (Forseti hringir.) Dugi það ekki til er gripið til sérstakra aðgerða.