138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag varðandi skuldavanda heimilanna en vandi íslenskra heimila er vandi þjóðarinnar. Ef ekki verður gengið í að fækka þeim heimilum sem þurfa á skuldavandaúrræðum að halda, þeim sem boðið er upp á, verða vandamál þjóðfélagsins enn meiri en þau eru í dag. Ég tel að við séum flestöll sammála um þetta hér inni. Við skulum ekki vera með neina uppgjöf og fara að ræða um að eina leiðin sé að bjóða upp á eitthvert félagslegt húsnæði fyrir allar þær fjölskyldur sem þurfa að yfirgefa heimili sín. Við höfum enn þá nokkurn tíma, þótt það sé liðið eitt og hálft ár frá hruni skulum við reyna að taka okkur tak og standa saman í þessu máli eins og hv. þm. Þór Saari benti á. Í þessu máli höfum við reynt að vera samstiga. Við verðum að leggja okkur öll fram við að leysa þetta mál. Þetta er vandi íslensku þjóðarinnar og ég skora á okkur öll að einbeita okkur að þessu verkefni. Um þetta getum við sameinast og við getum ekki leyft okkur að gefast upp í þessu máli. Við skulum ekki láta söguna dæma okkur þannig að okkur hafi mistekist að leysa þennan mikla vanda þjóðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)