138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þær eru sláandi tölur Seðlabankans um skuldavanda heimilanna sem segja okkur þingmönnum að fjórða hvert heimili í landinu getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Ef við mundum skipta þessum heimilum í tvo flokka, þ.e. 40 ára og yngri og 40 ára og eldri, er staða yngri hópsins hlutfallslega miklu verri en þessar tölur benda til. Við höfum í eitt og hálft ár talað fyrir því að við verðum að koma til móts við skuldug heimili í þessu samfélagi. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir almennum aðgerðum, skuldaleiðréttingu til að minnka umfang þessa vanda. Við búum því miður við ríkisstjórn sem hefur einbeitt sér að því að standa vörð um bankana sérstaklega, að standa vörð um málefni sparifjáreigenda. Hvenær mun koma að skuldugu fólki í þessu landi sem vann það eitt sér til saka að taka lán sem stökkbreyttust í kjölfar hrunsins? Hvar er réttlætið gagnvart þessu unga barnafólki í okkar samfélagi? Er það nema von að virðing þingsins sé eins og raun ber vitni? Hér er talað og talað um að leysa skuldavanda heimilanna, en hvað gerist svo? Það gerist ekki neitt. Hér er talað og talað um að fjölga störfum í samfélaginu. Hvað gerist svo? Atvinnuleysi eykst. Þetta gengur einfaldlega ekki að búa við ríkisstjórn sem talar og talar. Við lifum á örlagatímum. Við þurfum að koma til móts við heimilin í landinu. Við þurfum róttækar aðgerðir sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir. Við höfum talað fyrir samvinnu í þessum efnum í þinginu en því miður er lítill samstarfsvilji af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem umfram allt talar og talar (Forseti hringir.) og heldur fallega blaðamannafundi en síðan gerist ekki neitt.