138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Alveg fram að því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vakti athygli á því hér í ræðu í gær að undirrituð hefði verið yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um einhvers konar lokadagsetningu varðandi úrræði fyrir heimilin í landinu lá þetta í hálfgerðu þagnargildi. Þess vegna er þakkarvert að þetta mál skuli vera borið inn í þingsali og vakin athygli á því. Það liggur fyrir sem staðfesting af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að þannig er þetta, þetta er lokadagsetning sem hæstv. ráðherra hefur undirritað ásamt fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nú hefur verið leitað eftir því hvort þess sé ekki að vænta að fram komi þá tillögur til að leysa skuldavanda heimilanna í landinu. Svarið er mjög skýrt: Það sem þegar er komið fram er það sem við munum sjá. Það er ekkert flóknara en það. Svarið sem kom fram hjá starfandi formanni félagsmálanefndar var mjög skýrt að þessu leytinu. Þess er ekkert sérstaklega að vænta að neinar nýjar tillögur komi fram í þessum efnum. Þeir sem núna eru að glíma við þennan mikla vanda þurfa þá að bera stöðu sína saman við þau frumvörp sem fyrir liggja og athuga hvort það dugi þeim til að lifa af og forða sér frá uppboðum á heimilum sínum.

Það sem liggur fyrir og kemur fram í skýrslu Seðlabankans er að það er gríðarlega mikill óleystur vandi. Hér hefur verið nefnd talan 25% eða þar um bil en þá er auðvitað ótalinn vandi þess almenna fólks sem er kannski að reyna að basla áfram, berjast við skuldirnar, heldur sér rétt rúmlega á floti en sér hins vegar ekki út úr vandanum. Það er sá vandi sem við höfum lítið horft til, það er sá vandi sem hefur verið horft gjörsamlega fram hjá í tillögum ríkisstjórnarinnar og það er sá vandi sem á eftir að koma upp á borðið með miklu meiri þunga á næstu vikum og mánuðum. Það fólk er bókstaflega að gefast upp og það sér engin úrræði, hvorki í þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram né þeim hugmyndum sem hafa verið ræddar af hálfu ríkisstjórnarinnar enda er nú búið að svara þessu skýrt, lokadagsetningin verður núna á haustdögum og engin (Forseti hringir.) frekari úrræði eru væntanleg.