138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu vegna þess að þetta mál sýnir okkur í hnotskurn hversu sterkt samfélag við eigum. Eyjafjöllin eru ein fallegasta og blómlegasta sveit landsins. Í Rangárþingi eystra er gríðarlega mikil mjólkurframleiðsla og þetta er sterkt samfélag. Undir Eyjafjöllum eru græn tún nánast allt árið og þess vegna er mikið áfall að sjá hvernig náttúran getur leikið okkur. Við munum hins vegar komast upp úr þessu, við munum lifa þetta af og ég treysti því að stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sveitin okkar þar austur frá komi til með að vera áfram flaggskipið okkar í íslenskum landbúnaði.

Nú hefur ríkisstjórnin sagt að brugðist verði við og vel haldið utan um allt það tjón og það vel bætt. Ég fagna þeirri yfirlýsingu og það ber að þakka ríkisstjórninni fyrir hvernig hún hefur tekið á þessu máli.

Hins vegar vakna óteljandi spurningar hjá íbúunum sem í þessu lentu um hvað nákvæmlega er átt við með því að það eigi að bæta tjón. Þessum spurningum þarf einfaldlega að safna saman og fara vel yfir þær. Það er verið að gera það.

Samfélagið okkar þarna fyrir austan sýndi að það náði því að grípa vel utan um atburðarásina. Íbúarnir höfðu búið við það frá því að það byrjaði að gjósa á Fimmvörðuhálsi að eiga á hættu nánast allan sólarhringinn að þurfa að rýma hús sín. Það getur enginn ímyndað sér hvernig sú tilfinning er nema að upplifa hana. En af því að til voru góðar viðbragðsáætlanir sem samfélagið sjálft átti þátt í að búa til með hinu opinbera gekk þetta allt saman vel. Við skulum bara vera svolítið stolt af því hvernig þetta tókst allt saman og við skulum halda því á lofti að þrátt fyrir allar þær deilur sem geisa í íslensku samfélagi eigum við a.m.k. sterkt samfélag. Við kunnum að bregðast við og við kunnum að hjálpa hvert öðru gegnum mikla erfiðleika. (Forseti hringir.) Við skulum hafa það í huga næstu dagana.