138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:24]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að taka málið upp. Ég þakka líka öllum sem hafa komið að vinnu við uppbyggingu á svæðinu, Almannavörnum, lögreglu, björgunarsveitum, sjálfboðaliðum hvarvetna að, íbúum o.fl. Ég fyllist stolti og þakklæti þegar ég sé þessi fumlausu viðbrögð. Þessir aðilar hafa svo sannarlega sýnt hvernig við eigum að byggja upp nýtt Ísland og hvernig við getum gert það.

Ég þakka líka fumlaus viðbrögð ríkisstjórnar. Það er ljóst að vissir bændur á hamfarasvæðinu hafa orðið fyrir mestu tjóni. Ég hygg að það eigi að mynda sérstök teymi í kringum jarðir þeirra. Við eigum ekki bara að huga að fjárhagslegu hliðinni, við skulum líka huga að mannlega þættinum. Fylgifiskur náttúruhamfara er áfallastreituröskun sem ýmist getur komið fram strax eða mánuðum eða missirum síðar. Að þessum mannlega þætti verðum við að huga sérstaklega. Við verðum að gefa von um bjarta framtíð og ekki bara tryggja gegn skemmdum heldur líka hugsa til framtíðar. Þarna er kornforðabúr Íslands. Það eru hugmyndir uppi um kornþurrkun á svæðinu í Drangshlíð sem menn binda miklar vonir við en hafa ekki fengið fjármagn til að sinna. Þar skortir ekki mikið á, 15 millj. kr., en það gefur von að koma því verkefni í framkvæmd. Aðstaða er fyrir hendi. Ég skora á ríkisstjórnina að taka það mál sérstaklega upp til að gefa von og hvetja kornræktendur til að halda áfram.

Ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Árna Johnsens um úrbætur. Hann nefndi m.a. varnargarða við Markarfljót. Ég vil ekki síður nefna varnargarða við Svaðbælisá því að það er ljóst að við hamfarahlaupið hlóð áin verulega undir sig, hlóð undir sig tugum sentímetra, jafnvel hálfum metra. (Forseti hringir.) Íbúar á Þorvaldseyri standa núna berskjölduð ef það kemur nýtt flóð. Þá verða eignir og líf í hættu. Við því verður að bregðast hið fyrsta með því að dýpka strax farveg árinnar.