138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:32]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það þarf að gera snarpa verkáætlun. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem þessi umræða hefur fengið. Það þarf til að mynda að tryggja að útlagður kostnaður bænda, sveitarstjórnar og annað falli inn í bætur sem þarf að vinna úr, eins og hæstv. fjármálaráðherra vék að. Það þarf að tryggja að lengd verði lán bænda á svæðinu við þessar aðstæður. Það þarf að tryggja heyforða ef gosið heldur eitthvað áfram og styrkja bændur við kostnað varðandi heyskap langt í burtu frá búum, það er eðlilegt við þessar aðstæður. Það þarf að koma einu inn sem ekki er til í samfélagi okkar í dag, það er rekstrarstöðvunartrygging. Hún er ekki til í viðlagatryggingu og það er ekki einu sinni hægt að tryggja sig. Þetta þarf að vera inni í viðlagatryggingu og það þarf að taka tillit til þess við bætur núna.

Rekstrarstöðvunartrygging fyrir 100 milljónir eru 25 þús. kr. í reglum Viðlagatryggingar þó að það sé ekki til þar. Það eru 25 þús. kr. fyrir fyrirtæki sem vill og þarf að tryggja sig fyrir 100 millj. kr. tjóni af rekstrarstöðvun. Þetta á við um bændur og ferðaþjónustu á landi og jöklum, til að mynda ferðaþjónustufyrirtækið á Sólheimasandi, 20 ára gamalt fyrirtæki sem núna er úr leik í a.m.k. eitt ár. Þetta þarf að taka inn í dæmið.

Það þarf að ráða vinnusveitir til tiltektar, aðstoðarsveitir vegna skepnuhalds, ráða 100–200 unglinga í unglingavinnu þegar skólum er lokið og tryggja þannig að unnið verði að þessum hlutum. Það verður að tryggja að mulningur sé settur á heimreiðir, það er búið að hreinsa hann burt með öskudrullunni. Það þarf að fara í markvissa kynningu út á við sem nú þarf að vinna að. Það þarf að tryggja að bjartsýni (Forseti hringir.) og baráttugleði ríki í þessum efnum, byggja hratt og ákveðið upp.

Undir Fjöllunum býr fólk, virðulegi forseti, sem túlkar nið aldanna, seiglu, þolinmæði og baráttugleði. Barnabarn bóndans á Eyri sagði orðin sem skipta máli, drengur undir fermingu sagði: „Gosið var flott fyrst, það truflaði svo aðeins en allt endar þetta vel. Við búum áfram í þessum sveitum.“ (Forseti hringir.) Það skulum við hafa að markmiði í því sem fram undan er.