138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, fyrir hönd samgöngunefndar.

Samgöngunefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Hermann Sæmundsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Karl Björnsson, Gunnlaug Júlíusson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. [Órói í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (SVÓ): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Akureyrarbæ, Bláskógabyggð, Dalabyggð, Eyþingi, Fjallabyggð, Flóahreppi, Grindavíkurbæ, Grímsnes- og Grafningshreppi, Grundarfjarðarbæ, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Norðurþingi, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga Suðurnesja, Svalbarðsstrandarhreppi, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Skagafirði og Vesturbyggð.

Í þessu frumvarpi er kveðið á um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á fjármálaupplýsingum til afnota fyrir opinbera aðila auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt er lagt til að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga fái við framkvæmd starfa sinna óhindraðan aðgang að gögnum sveitarfélaganna.

Á fundum nefndarinnar voru ákvæði frumvarpsins rædd með hliðsjón af hlutverki eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og lagaáskilnaði um jafnvægi í rekstri þeirra. Nefndin ræddi einnig samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði hagstjórnar að teknu tilliti til efnahagsástandsins og lakrar fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga. Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpið hefði verið unnið í góðu samstarfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga og að það standi í tengslum við heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga sem nú stendur yfir. Með frumvarpinu er leitast við að efla samtímaeftirlit með fjárhag sveitarfélaga og tryggja að söfnun upplýsinga sé með samræmdum hætti og þannig framsett að upplýsingarnar gefi sem gleggsta yfirsýn yfir fjármál hvers sveitarfélags. Athygli nefndarinnar er vakin á því að reglugerð ráðherrans sem vísað er til í frumvarpinu sé ásamt kostnaðarmati enn í vinnslu.

Með frumvarpi þessu er, eins og áður kom fram, kveðið á um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á fjármálaupplýsingum. Í dag er sveitarfélögum einungis skylt að senda ráðuneyti sveitarstjórnarmála ársreikninga og þriggja ára áætlun og eru því gerðar auknar kröfur til sveitarfélaga hvað þetta varðar með því frumvarpi sem hér um ræðir. Afar mikilvægt er að fyrir liggi betri og nákvæmari upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga en verið hefur enda er góð upplýsingagjöf forsenda þess að hægt sé að efla eftirlit með fjármálum sveitarfélaganna.

Eins og fram kemur í skýringum með frumvarpinu hefur verið rætt um það í allnokkurn tíma að skerpa á upplýsingaskilum, m.a. með það að markmiði að geta brugðist fyrr við erfiðleikum í rekstri sveitarfélaga en ekki síður til að hafa betri yfirsýn yfir fjárhagsstöðu þeirra. Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 kom berlega í ljós að ekki voru til nægilega samræmdar upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, ekki síst vegna skorts á lagaákvæðum þar um. Þrátt fyrir það tóku Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofan á þeim tíma höndum saman um öflun slíkra upplýsinga en það dugði hins vegar skammt þegar frá leið, aðallega sökum skorts á lagaákvæðum um skil á fjármálaupplýsingum sveitarfélaga að mati þeirra sem að því máli komu.

Samband íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneytið telja afar brýnt að koma þessum málum í betra horf en verið hefur og er frumvarp það sem hér um ræðir lagt fram í þeim tilgangi. Nú stendur yfir endurskoðun á sveitarstjórnarlögum þar sem m.a. verður tekið á þeim þáttum sem þetta frumvarp fjallar um. Það er hins vegar samdóma álit Sambands íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneytisins að ekki megi bíða lengur eftir lagasetningu vegna fjármálaupplýsinga sveitarfélaga og því er rétt að flýta því sem kostur er. Það er því full samstaða á milli ráðuneytisins annars vegar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar um frumvarp þetta og einnig hafa þau sveitarfélög sem sent hafa samgöngunefnd umsagnir um málið tekið undir mikilvægi þess að afgreiða það með þeim hætti sem hér er kveðið á um.

Samgöngunefnd er einnig einróma í afstöðu til þessa frumvarps og mælir með því að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir.