138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála honum í því að það þurfi að taka á þessum duldu framkvæmdum sem menn eru að fara í, eins og menn ætla að fara í gegn með háskólasjúkrahúsið, eins og Harpa er byggð, Egilshöll líka og sundlaugin á Álftanesi. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi komið til tals í nefndinni að banna hreinlega sveitarfélögunum að stofna til skulda, bara algjörlega, og feta þá í kjölfar mjög margra heimila á landinu sem hafa lært af hruninu og eru byrjuð að spara fyrir útgjöldum. Það verði sem sagt framtíðarstefnan að menn eigi yfirleitt fyrir öllum útgjöldum sem þeir fara í, jafnt sveitarfélög, einstaklingar, heimili, fyrirtæki og ríkið.