138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að brýna bæði mig og aðra til þess að sýna ráðdeild. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður segir, það er mjög gott ef sveitarfélögin, einstaklingarnir eða fyrirtækin eiga fyrir öllu sem þarf að gera. Það er samt þannig, virðulegi forseti, að sveitarfélögin geta lent í því að þurfa að fara í framkvæmdir sem þau eiga kannski ekki fyrir þá stundina og ef menn sýna ráðdeild í því er það mjög gott. Það er mjög mikilvægt að það sé gert, enda er það frumvarp sem við erum að ræða núna einmitt þáttur í því að efla eftirlit með sveitarfélögunum og eins líka að menn sjái fram úr þeim skuldbindingum sem þeir fara út í. Við þekkjum hér vandamál eins sveitarfélags sem fór mjög óvarlega í sínum framkvæmdum sem leiddi til mikillar kjaraskerðingar við íbúana, útsvarshækkana samhliða því og annars sem fylgir þeim ákvörðunum.

Eigi að síður verðum við að fara af mikilli varfærni í þessa umræðu. Mörg sveitarfélög fara mjög varlega í fjárskuldbindingum sínum og áætlunum en samt getur komið til þess að menn verði að taka til þess lán. Þá verða menn líka að gera það með þeim hætti að þeir sjá fram á að þeir geti staðið við afborganir. Það hefur líka verið umræða um það í samgöngunefnd hvort það væri hugsanlegt að menn settu einhverjar skorður við því, eins og hv. þingmaður kom hér inn á. Menn gætu hækkað útsvarið í ákveðinn tíma ef mjög dýrar framkvæmdir stæðu fyrir dyrum. Þá mundi hugsanlega þurfa ákveðið vægi íbúanna til að samþykkja þær, þ.e. kannski væri ráð að hafa íbúakosningu um það, sem væri mjög dýrt, til að örfáir einstaklingar gætu ekki skuldbundið heilt sveitarfélag. Auðvitað þurfum við að taka þessa umræðu dýpra og meira og það verður gert í hv. samgöngunefnd.