138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Forseti. Við ræðum breytingu á sveitarstjórnarlögum sem varða fjármál sveitarfélaga og svokölluð ársfjórðungsuppgjör sveitarfélaga til þess að eftirlitsnefndin verði betur í stakk búin til að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Ég sagði í fyrri ræðu minni við 1. umr. um þetta mál að stundum þætti mér löggjafinn sýna æðimikinn tvískinnung í lagasetningu. Hér er verið að setja lög til að kalla eftir upplýsingum og uppgjöri frá sveitarfélögum á meðan löggjafinn sjálfur á í mestum vandræðum innan fjárlaganefndar við að fá upplýsingar um það hvernig stofnanir ríkisins standa hverju sinni vítt og breitt um landið. Þetta er áþekkt og kynjakvóti í stjórnum einkafélaga úti í bæ meðan ríkisstjórnin getur ekki séð sóma sinn í að halda jafnréttislög við skipun stjórna í þau fyrirtæki sem hún hefur umráð yfir. Það ríkir pínulítill tvískinnungur í löggjafanum öðru hvoru. Það er hins vegar ljóst að eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, eins og eftirlit með rekstri ríkisstofnana, er að sönnu nauðsynlegt.

Ég vil aðeins varpa því inn í umræðuna hvernig menn ætla að skoða þessi ársfjórðungsuppgjör. Ætla menn að horfa í ársfjórðungsuppgjöri eingöngu til þess hvað stendur í A-hluta, þar sem eru tekjur og gjöld, A-hluta sem er raunverulegur rekstur sveitarsjóðs, og hvort tekjur sveitarfélagsins standa undir þeim gjöldum sem sveitarfélögin standa frammi fyrir? Það er í raun og veru mælikvarði á rekstur sveitarfélaganna. Síðan erum við með B-hluta fyrirtæki. Svo erum við með eignarsjóð sem oft heldur utan um eignir sveitarfélagsins. Eignarsjóður er oftar en ekki sá sem tekur lán til nýbygginga og það kemur ekki niður á og sér ekki stað í A-hluta sveitarfélaganna. Hvernig ætla menn að bera saman þessi ársfjórðungsuppgjör til að geta skoðað hvort sveitarfélagið stendur verulega illa? Á líka að taka þau sveitarfélög sem eiga öflug B-hluta fyrirtæki sem geta greitt arð inn í A-hlutann þannig að það sjáist ekki í raun hvort tekjur standi undir gjöldum heldur kemur arður frá fyrirtækjum inn til að rétta af A-hlutann? Á að taka þetta með inn þegar verið er að skoða og leggja mat á stöðu sveitarfélaganna hverju sinni?

Allt er þetta þarft, og vissulega þarft að það sé virkt eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig að sums staðar hafa sveitarfélög farið fram úr sér. Sums staðar hafa þau einfaldlega ekki ráðið við þær fjárfestingar sem þau hafa farið í. Hvernig ætla menn í þeirri endurskoðun sem á sér stað í sveitarstjórnarlögum að meðhöndla t.d. þær fasteignir sveitarfélaganna sem eru ekki eign sveitarfélaganna heldur sem þau hafa selt frá sér og eru síðan leigjendur að, eins og t.d. skólabyggingum í sveitarfélögum, og við vitum að ekki er hægt að ganga að í raun? Hvernig ætla menn að meðhöndla slíka langtímaleigusamninga í árshlutauppgjöri til að meta stöðu sveitarfélagsins? Hvernig ætla menn að fara í allar þessar leikfimisreikniæfingar til að hægt sé í raun að bera sveitarfélögin saman til þess að eftirlitsnefndin hafi eitthvað til að skoða til að segja til um hvort vá sé fyrir dyrum eður ei?

Hafa menn íhugað þetta ferli allt saman? Eða eru menn að bregðast við með því að kalla eftir árshlutauppgjöri bara vegna nýkominna vanda einstakra sveitarfélaga? Þegar menn fara í breytingu á löggjöf verða þeir að svara því með hvaða hætti þeir ætla síðan að nýta sér þá breytingu sem verið er að fara í.

Ég vænti þess að allar þær spurningar sem ég hef varpað hér fram hafi með einhverjum hætti komið fram í nefndinni og menn hafi kallað til aðila sem hafa svarað einhvern veginn. Þegar menn fara af stað — og er það skýrara en nokkru sinni fyrr með útkomu þeirrar rannsóknarskýrslu sem við höfum nú undir höndum — og þar til stjórnvaldsákvörðun er tekin þurfa að liggja fyrir skýrir verkferlar svo það sé ljóst hvernig ferlið var hugsað og hvernig það eigi síðan að fara í framkvæmd. Flýtum okkur hægt og höfum þessa hluti á hreinu þegar við setjum lög sem við ætlum að sjálfsögðu öðrum að fara eftir. Höfum verklagsreglurnar skýrar.

Frú forseti. Þetta var innlegg frá gömlum sveitarstjórnarmanni vegna þess að sveitarfélögin eru kjölfesta samfélagsins. Án þeirra væri ekkert. Þetta er eins og að fjölskyldan er hornsteinninn eins og stundum er sagt en æðra stjórnstigið, löggjafarvaldið Alþingi, gleymir því stundum hversu mikilvægt sveitarstjórnarstigið er í landinu.