138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Fjárlaganefnd hefur til þess vald og getur kallað eftir upplýsingum hvenær sem hún vill til stofnana og ráðuneyta og óskað eftir að Ríkisendurskoðun leiti eftir upplýsingum, gefi álit á útgjalda- og rekstrarhliðum ráðuneyta og stofnana. Það hefur ekki verið gert nógu ítarlega á undanförnum árum og þurfum við að taka okkur á. Vandinn felst aðallega í að við höfum ekki nýtt okkur þau tæki og þann búnað sem við höfum, hvorki í fjárlaganefnd né annars staðar, til að afla slíkra upplýsinga og fylgja betur eftir því að fjárlögum sé t.d. fylgt. Í því ætlum við að bæta okkur og ég held að full samstaða sé um það hér á Alþingi og í fjárlaganefnd og í þeim nefndum sem hafa með þau mál að gera, bæði ríkis og sveitarfélaga.

Fram kom á fundum samgöngunefndar í umræðu um þetta mál að nánari útfærsla á því, þ.e. um hvaða upplýsingar verður beðið, á hvaða formi og hvernig með þær verður farið, muni fylgja í reglugerð með frumvarpinu þegar að því kemur. Samstaða er á milli sveitarfélaganna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins um að haga málum með þeim hætti. Nokkuð góð samstaða ef ekki algjör er um hvernig sú vinna fer fram og aðeins um útfærsluatriði að ræða hvernig reglugerðin verður eftir því sem okkur skildist á þeim aðilum sem til okkar komu og ræddu þetta.

Vonandi verður frumvarpið að lögum eins og hér hefur verið lagt fram og mælt með þannig að hægt sé að fara að vinna eftir því sem allra fyrst og kalla eftir upplýsingum til að ná betur utan um skuldastöðu og fjármál sveitarfélaga.