138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

samkeppnislög.

572. mál
[15:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps þar sem óbeint er verið að auka fjármagn til Samkeppniseftirlitsins þannig að það geti aukið eftirlit með fyrirtækjum sem hafa m.a. verið yfirtekin af bönkum eða eru háð bönkum um fjárhagslega endurskipulagningu. Það er ekki bara verið að auka eftirlitið með fyrirtækjunum sjálfum heldur líka bönkunum.

Eitt mikilvægasta atriðið í frumvarpinu er heimild til handa Samkeppniseftirlitinu um að það geti krafist uppskiptingar á fyrirtækjum sem eru með markaðsráðandi stöðu og án þess að þau hafi brotið samkeppnislög. Á útrásartímanum jókst fákeppni mjög mikið hér á mörkuðum, m.a. vegna þess að eigendur fjölmargra rekstrarfyrirtækja áttu jafnframt banka sem þeir gátu rænt til að efla stöðu þessara rekstrarfélaga. Markmiðið var náttúrlega að auka arðsemi fyrirtækjanna og ekki síst að greiða út háar arðgreiðslur. Nú hafa mörg þessara rekstrarfyrirtækja lent í fangi bankanna þrátt fyrir góða markaðsstöðu og bankarnir eru að selja þau í óbreyttri mynd. Dæmi um það eru Hagar og 365. Það er sem sagt ekki verið að tryggja dreift eignarhald eða að starfsmenn geti eignast þessi fyrirtæki.

Það sem ég hef áhyggjur af er að Samkeppniseftirlitið fái heimild til að fyrirskipa uppskiptingu á fákeppnisfyrirtækjum á fákeppnismörkuðum. Slíkir markaðir eru oftast nær á landsbyggðinni og uppskiptingin mundi þýða að fleiri en eitt fyrirtæki þjónustuðu framleiðendur og neytendur á mjög stóru markaðssvæði. (Forseti hringir.) Það mundi leiða til þess að verðið hækkaði. Ég spyr því hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið fyrirskipi uppskiptingu fákeppnisfyrirtækja sem muni leiða til hærra markaðsverðs.