138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

samkeppnislög.

572. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu og lýsingu á málavöxtum. Hér er verið að auka tekjur Samkeppniseftirlitsins en auðvitað er einhver sem greiðir og það er atvinnulífið. Þetta getur verið mjög hamlandi fyrir sérstaklega minni fyrirtæki. Ég vil benda á og spyrja hæstv. ráðherra hvort þau mörk um samruna sem miðast við að heildarvelta sé meiri en 2 milljarðar kr. á ári, ársveltan, séu ekki miklu lægri en eru í Skandinavíu. Mig minnir að þegar þetta var fyrst sett á hafi þetta verið 1/20 af því sem er í Danmörku og það kannski valdi því hvað vinnan er mikil. Menn vasast í alls konar smáfyrirtækjum í staðinn fyrir að sinna þeim fyrirtækjum sem virkilega skipta máli. Ég er alveg sammála því að sennilega þarf að gera stórátak í því að skerpa á samkeppninni hér á landi eftir hrunið því að nú eru flest fyrirtæki orðin meira og minna í eigu þriggja banka og það er alveg stórhættulegt samkeppninni hvernig málum er komið. Ég held að menn ættu kannski að einbeita sér meira að því þar sem bankarnir eru í samkeppni við önnur fyrirtæki á markaði sem eru kannski vel rekin en lenda í vonlausri samkeppni við aðila sem hefur banka sem bakhjarl. Ég held að menn séu dálítið á villigötum að vera að ræða um samrunann, það ætti frekar að hækka mörkin og sinna þá virkilega þeim samrunum sem skipta máli.