138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

samkeppnislög.

572. mál
[15:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samruni fyrirtækja er mjög stórt mál og það sem skaðar kannski mest er tímaramminn sem Samkeppniseftirlitið hefur til að vinna málið, sem eru einhverjar vikur ef ég man rétt. Allan þann tíma eru starfsmenn í báðum fyrirtækjunum í pattstöðu. Bestu mennirnir óttast fækkun á starfsfólki við samrunann, leita sér að annarri vinnu og fá hana — því að þeir eru góðir — en aðrir sitja eftir og óttast. Svona staða býr til mjög slæma stöðu og ég hugsa að mörg fyrirtæki skirrist við að fara í samruna út af því að þau þurfi að fara í þetta langa ferli í stað þess að tilkynna að þau séu búin að sameinast. Það var rætt dálítið mikið á sínum tíma þegar þessi ákvæði voru sett að þetta skaðaði fyrirtæki mjög mikið og hamlaði nauðsynlegum samruna. Ég held að hv. nefnd sem fær þetta frumvarp til skoðunar og getur að sjálfsögðu breytt ákvæðum um hámarkið ætti að skoða hvort það væri ekki eðlilegt að hafa þetta hámark hærra þannig að við þvingum ekki óþarflega mörg fyrirtæki í þetta ferli sem kostar Samkeppniseftirlitið heilmikið. Jafnvel þótt það geri lítið með það annað en að samþykkja held ég að menn ættu að skoða þessi hámörk. Þau eru nefnilega allt of lág.