138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

raforkulög.

573. mál
[16:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa skýrt þessa hluti og sérstaklega þetta með fjarskiptin. Þá liggur það alveg fyrir að ef gat er á markaðnum þ.e. ef fjarskiptafyrirtæki uppfyllir ekki ákveðna þjónustu á ákveðnum stað eða eitthvað slíkt þá getur þetta fyrirtæki nýtt tækni sína þar og þess háttar.

Við verðum að sjálfsögðu að gera ráð fyrir að með þessu sé fylgst með einhverjum hætti og það er væntanlega Samkeppniseftirlitið eða einhver annar sem gerir það þannig að þetta fyrirtæki fari ekki út í neinar æfingar, svo við þurfum sem betur fer ekki að hafa áhyggjur af þessu.

Varðandi stórnotendaskilgreininguna þá er ég sammála hæstv. ráðherra um það að verið sé að auka sveigjanleika. Það er vitanlega til bóta að aðlögunartíminn hefst þegar framleiðslan er komin af stað. Hins vegar veit ég að við erum sammála um það að sársaukalaust sé að því sé velt upp í nefndinni hvort talan eigi að vera átta eða tíu. Hver munurinn sé og hverjum það gagnist og þá um leið hvort þessi aðlögunartími dekki þær áhyggjur sem menn hafa. Ég tek undir það.