138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[16:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er réttur skilningur hjá hv. þingmanni að þarna er átt við allar nýfjárfestingar, líka alíslenskar að uppfylltum þessum ákveðnu skilyrðum. Það hefur kannski borið við í umræðunni að þarna sé eingöngu um að ræða frumvarp um erlendar fjárfestingar vegna áherslu á samkeppnishæfi í hluta þessa frumvarps. Í nágrannalöndum okkar er slíkri löggjöf fyrir að fara en hér hefur hún ekki verið þannig að sá hluti hefur snúið að samkeppnishæfi okkar hvað varðar erlendar fjárfestingar. Ég ítreka að þetta á við um allar nýfjárfestingar ef þær uppfylla skilyrði um lágmark 300 millj. kr. eða skapa 20 ársverk fyrstu tvö ár verkefnisins.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns er það svo að frumvarpið á eftir að fara í gegnum þingið. Frumvarpið um gagnaverið er lengra komið. Ég lít svo á að það snúist aðallega um tíma gagnvart verkefninu sjálfu vegna þess að það hefur lengi verið í gangi en umfjöllun er rétt að hefjast. Ef þinginu tekst að ljúka þeim fjárfestingarsamningi á næstu vikum er tímaspursmál hvað það verkefni varðar. Æskilegt er og ég vona að það verði síðasti sértæki fjárfestingarsamningur sem hv. Alþingi afgreiðir og að hið almenna umhverfi taki við. Um það snýst málið einfaldlega varðandi Verne að fjárfestingarverkefnið hefur lengi verið í gangi, öllum samningum um það er í raun og veru lokið og niðurstaða er að ákveðnu leyti komin hjá báðum aðilum. Öll sú vinna hvað það varðar væri eftir (Forseti hringir.) ef þeir færu síðan inn í þetta almenna frumvarp, þannig að miklar tafir yrðu, um nokkra mánuði.