138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[16:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Það sem ég átti við með að samningum væri lokið var að samningum millum ráðuneytisins og þessara aðila var lokið með því frumvarpi sem skilað var inn til þingsins. Nú er málið í meðförum þingsins. Við höfum gert það sem við höfum getað til þess að liðka til, svarað spurningum, tekið þátt í að koma á beinu sambandi milli aðila þannig að málið geti gengið greiðlega fyrir sig, en iðnaðarráðuneytið er ekki gerandi í málinu vegna þess að nú er það alfarið í höndum þingsins og hefur verið stýrt vel af formanni iðnaðarnefndar. Svo verður væntanlega þar til málinu lýkur.

Við fylgjumst með og bjóðum líka fram þann stuðning og þá aðstoð sem við getum veitt í því þannig að málið geti gengið greiðlega fyrir sig ef eftir því er óskað, annars ekki.

Ívilnanirnar í frumvarpinu vegna fjárfestingarsamnings Verne Holdings eru sambærilegar við það sem er að finna í ívilnanafrumvarpinu. Þar ber ekkert í milli og kæmi þar af leiðandi líklega svipað út úr slíkri vinnu, þ.e. þessu almenna frumvarpi, fyrir utan að í frumvarpinu sem kom fyrir þingið er kveðið á um að samningurinn eigi að gilda í 20 ár. Sú athugasemd hefur verið gerð við það af hálfu ESA að hann eigi eingöngu að gilda í tíu ár. Ég geri ráð fyrir að nefndin taki það til umfjöllunar þannig að ef því verður breytt er þetta orðið fyllilega sambærilegt.