138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:03]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp svarar til þeirrar stefnumótunar sem fram kemur í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að ýtt verði undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og stuðlað að beinum erlendum fjárfestingum. Með frumvarpinu er vikið frá þeirri stefnu sem hefur verið í gildi í samfélagi okkar að gerðir eru stopulir sértækir fjárfestingarsamningar við einstök fyrirtæki á grundvelli heimildarlaga frá Alþingi, sem síðan krefjast samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA. Við tekur rammalöggjöf, almennar leikreglur sem ég tel að séu mjög til bóta og munu taka við af því þunglamalega sértæka kerfi sem m.a. hefur leitt til þess að einstök verkefni taka mánuði og jafnvel missiri í meðförum stjórnvalda. Þess í stað munum við í framtíðinni búa við almennar gegnsæjar leikreglur sem eru öllum ljósar og standa öllum til boða sem uppfylla tiltekin almenn skilyrði fyrir veitingu ívilnunar.

Enginn vafi er á því að slík almenn löggjöf um ívilnanir er til þess fallin að laða til landsins erlenda fjárfestingu og bæta samkeppnishæfni landsins með tilliti til nýfjárfestinga. Erlendir fjárfestar horfa ekki síst til stöðugleika í rekstrarumhverfinu og ívilnanir af því tagi sem hér um ræðir eru sannarlega lóð á vogarskálar stöðugleika til næstu framtíðar.

Hæstv. iðnaðarráðherra rakti í framsöguræðu sinni þau níu skilyrði fyrir ívilnunum sem tiltekin eru í frumvarpinu og þau fara yfir vítt svið. Ég nefni þar sérstaklega eitt skilyrði sem ég tel að þurfi að skoða nánar í meðförum iðnaðarnefndar, þ.e. þar sem segir í níunda lagi að starfsemi viðkomandi félags sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og teljist ekki óæskileg í umhverfislegu tilliti. Kveða þarf skýrar að orði, kveða upp úr með það hvort þar er vísað til almennra náttúruverndarsjónarmiða eða stefnumörkunar stjórnvalda í loftslagsmálum, svo dæmi séu tekin. En vissulega er það mikilvægt sjónarmið í atvinnustefnu okkar til framtíðar að við setjum í ákveðinn forgang verkefni sem styðja sjálfbæra umgengni við náttúruna og falla undir það sem kallað hefur verið græn atvinnustarfsemi eða græn atvinnusköpun.

Virðulegi forseti. Þær ívilnanir sem felast í frumvarpinu eru tvíþættar, annars vegar byggðaaðstoð og hins vegar almenn aðstoð óháð staðsetningu verkefnis. Byggðaaðstoðin á við um fjárfestingarverkefni í landsbyggðarkjördæmunum þremur, Suðurlands-, Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi, og felur í sér stofnfjárstyrki, frávik frá ákveðnum sköttum, opinberum gjöldum og sölu eða leigu á landi eða lóð undir nýfjárfestingu. Almenna aðstoðin felur í sér þjálfun, aðstoð vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, aðstoð við rannsóknir og þróunarstarf og aðstoð vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna.

Þriggja manna nefnd undir forustu fulltrúa iðnaðarráðherra fer síðan yfir umsóknir og metur hvort þær séu í anda þessara laga. Nefndin leggur síðan, ef allt er með felldu, tillögu til ráðherra sem síðan leggur fram boð um ívilnun til viðkomandi rekstraraðila. Í kjölfarið á því, ef það ferli skilar jákvæðri niðurstöðu, er gerður samningur milli stjórnvalda og viðkomandi umsóknaraðila. Ég vil í því sambandi velta fyrir mér, og tel að við eigum að ræða það í iðnaðarnefnd, hvort ekki sé eðlilegt að setja afgreiðslu þessarar nefndar tímamörk, þannig að umsækjendur geti fyrir fram treyst því og gengið að því sem gefnu hversu langan tíma umsóknarferlið tekur. Ég tel að það sé hluti af vandaðri og góðri stjórnsýslu og veiti stjórnvöldum aðhald í því að vinna hlutina fljótt og vel en þó án þess að slaka á faglegum kröfum.

Ein meginbreyting rammalöggjafar frá fyrri fjárfestingarsamningum er einmitt tímalengd samninganna. Hér er miðað við tíu ára samning en þeir fjárfestingarsamningar sem við höfum þekkt hér á landi hafa, eins og hæstv. iðnaðarráðherra nefndi, verið á bilinu 20–40 ár. Þróunin er þó klárlega í átt til styttri samninga og það hefur m.a. markast af breyttum áherslum innan Evrópusambandsins sem kemur fram í viðhorfi og viðhorfsbreytingu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Ég vil að lokum fagna þeirri áherslu sem kemur fram í frumvarpinu á það að eitt af skilyrðum ívilnunar sé að viðkomandi verkefni hafi í för með sér skýran efnahagslegan og samfélagslegan ávinning fyrir Ísland. Gerð er krafa um að umsækjendur skili inn rekstrar- og viðskiptaáætlunum og Fjárfestingarstofa framkvæmi á grundvelli þeirra upplýsinga útreikninga á arðsemi verkefnisins svo meta megi þann virðisauka sem verður eftir í landinu vegna þess.

Lengi hefur verið gagnrýnt að stærstur hluti virðisaukans sem orðið hefur til, t.d. í stóriðjuverkefnunum hér á landi, hafi verið fluttur beint úr landi og við þurfum sannarlega að hafa vakandi auga með því að þær fjárfestingar sem við erum að styðja sérstaklega með ívilnunum af þessu tagi, skili sér að stærstum hluta inn í íslenskt þjóðarbú atvinnulífi okkar til uppbyggingar.

Ég bind miklar vonir við frumvarpið. Ég tel að það gefi íslensku atvinnulífi góða viðspyrnu og geti skapað grundvöll fyrir ný tækifæri í atvinnumálum sem m.a. byggi á því að laða hingað til lands fleiri atvinnugreinar og atvinnulíf okkar verði þannig reist á fleiri og fjölbreyttari stoðum í framtíðinni en verið hefur á undanförnum árum.