138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frumvarp þetta er komið fram. Ég mun að sjálfsögðu fara gaumgæfilega yfir það í iðnaðarnefnd með öðrum nefndarmönnum og vega og meta hvort einhverju þurfi að breyta og þess háttar. Að mörgu leyti er gott að við skulum vera að setja hér almennar leikreglur, almennar reglur í stað sérlaga. Ég velti því aðeins fyrir mér, og ég hef vitanlega þann fyrirvara á að ég hef ekki lesið þetta alveg staf fyrir staf, að það væri ágætt fyrir okkur þegar við förum í gegnum þetta í nefndinni að velta fyrir okkur hvort einhver hætta sé á að verið sé að takmarka að einhverju leyti fjárfestingar með því að gera þetta með þessum hætti og hvort vera þurfi einhverjir ventlar eða eitthvað slíkt í lögunum. Ég er svona meira að hugsa upphátt en að ég hafi lagt þetta niður fyrir mér, en það er vitanlega þannig þegar sett eru almenn viðmið, sem er yfirleitt af því góða, ættum við að sjálfsögðu að reisa ákveðnar skorður. Það getur vel verið að í frumvarpinu felist ekkert slíkt, ég segi þetta hér til að við höfum það aðeins með okkur inn í þessa vinnu.

Hér er m.a. vísað í reglugerðir Evrópusambandsins og væntanlega eru þetta reglugerðir sem við erum þegar að vinna eftir og hafa verið teknar upp á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við þurfum alla vega að fá botn í það hvort við séum að taka upp eða gefa undir fótinn með það að við tökum upp einhverjar nýjar reglur sem við höfum ekki þegar tekið upp. Ég kann það ekki, það verður bara að koma í ljós.

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þetta frumvarp skuli komið fram, því að það er þá ekki þess vegna sem okkur skortir hugsanlega nýfjárfestingar eða annað að ekki sé til löggjöf sem er aðgengileg fyrir þá sem hafa áhuga á því. Þetta segi ég vitanlega með þeim fyrirvara að það á eftir að fara í gegnum þetta í nefndinni. Ég hef aðeins áhyggjur af því hvort við getum verið að loka okkur inni að einhverju leyti, inni í einhverjum ramma með þessu frumvarpi þar sem við hrekjum hugsanlega einhverja frá, en það er eitthvað sem við þurfum að fara yfir.

Frú forseti. Ég vil bara fagna því að frumvarpið er komið fram.