138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að í sjálfu sér sé ástæða til að fagna að fram komi frumvarp sem hefur það markmið að efla fjárfestingu í atvinnustarfsemi og uppbyggingu atvinnulífsins hér á landi. Vandinn á undanförnum mánuðum og frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur verið sá að allar þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið eða a.m.k. lang, langflestar sem á annað borð varða atvinnulífið hafa verið til þess fallnar að draga úr hvatanum til fjárfestinga í atvinnustarfsemi á Íslandi. Þar ber hæst hækkun skatta á lögaðila, á fjármagnstekjur og á fjölmarga aðra þætti sem er almennt séð ekki til þess fallið að auka áhuga manna eða fyrirtækja á frekari fjárfestingu. Við framlagningu þessa frumvarps er ákveðinn breyttur tónn að þessu leyti.

Þetta vekur spurningu sem ég held að sé nauðsynlegt að komi inn í umræðuna á þessu stigi málsins, það er hvernig við viljum sjá löggjöf um atvinnulífið úr garði gerða. Viljum við hafa hana almenna, þ.e. að öll fyrirtæki lúti einfaldlega sömu lögum? Eða viljum við hafa hlutina þannig að mismunandi reglur gildi um mismunandi fyrirtæki og að stjórnvöld hafi heimild til þess að ívilna eða veita afslátt frá ákvæðum sumra laga vegna þess að á þeim tíma finnst mönnum viðkomandi verkefni spennandi og skemmtilegt?

Þetta segi ég vegna þess að í þessari umræðu hefur svolítið verið talað um að fyrirkomulag þessara mála hafi hingað til verið þungt í vöfum, allir fjárfestingarsamningar sem fela í sér ívilnanir frá lögum hafi þurft að fara í gegnum þingið, sem er rétt, en það er ekki tilviljun vegna þess að þegar vikið er frá almennum gildandi lögum á einhverju tilteknu sviði verður það að gerast með lögum. Það er ekki skrýtið að stjórnvöld hafi til þessa ekki getað veitt afslátt á skattamálum eða gert aðrar slíkar tilhliðranir vegna einstakra fjárfestingarverkefna, það hefur einfaldlega þurft að gerast með sérstakri lagasetningu á Alþingi. Þrátt fyrir að sumir hafi talað um að það sé þungt í vöfum hefur það þó einn kost. Það er sá kostur að um slíkar ívilnanir hefur farið fram umræða eða að minnsta kosti gefist tækifæri til umræðu í þinginu um viðkomandi verkefni. Það hefur verið mat meiri hluta þingmanna, lýðræðislega kjörinna þingmanna, að veita bæri slíkar ívilnanir með lögum.

Það er ákveðin hætta í sambandi við þetta frumvarp sem snýr nákvæmlega að þessu. Þó að ætlunin sé að leggja fram almenna rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga í atvinnulífinu eru mörg ákvæði frumvarpsins afar opin og matskennd. Stjórnvöldum verður falið mikið vald til að meta aðsæður, meta hvort skilyrði eru fyrir hendi og meta um leið hvaða ívilnanir eigi að veita í hverju tilviki fyrir sig. Með þessu er í rauninni verið að veita einstökum stjórnvöldum gríðarlega mikið vald. Ég hef nokkrar áhyggjur af þessu og tel að hv. iðnaðarnefnd eigi að skoða þennan þátt nokkuð vel. Hversu mikið vald? Þrátt fyrir að ágætt sé að hafa þessar viðmiðanir sem hér er að finna þá svara þær því ekki. Viðmiðanirnar sem settar eru fram eru eins og kemur fram í frumvarpinu ákveðinn rammi en það verður síðan stjórnvalda á hverjum tíma að velja úrræði innan þess ramma og meta hvað á við í hvaða tilviki fyrir sig. Mjög mikið vald er því fært á hendur stjórnvöldum í þessum efnum. Það er spurning hvort þingið er sátt við að færa jafnmikið vald til stjórnvalda og gert er ráð fyrir — vald í mjög mikilvægum matskenndum atriðum.

Ef við horfum t.d. á 5. gr. þar sem kveðið er á um skilyrði fyrir veitingu ívilnana eru mörg skilyrðin nokkuð einföld. Sá liður sem helst hlýtur að kalla á matskennda niðurstöðu stjórnvalda er f-liður þar sem segir að þegar meta eigi hvort veita eigi ívilnun vegna nýfjárfestinga samkvæmt lögum þessum skuli liggja fyrir arðsemisútreikningar samanber 18. gr. sem sýni fram á þjóðhagslega hagkvæmni út frá hagsmunum íslensks efnahagslífs og samfélags, t.d. út frá atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu. Þetta eru óskaplega matskennd skilyrði. Stjórnvöldum er falið mikið vald þegar þau eiga að taka afstöðu til þess hvort verkefni uppfylli þessi skilyrði eða ekki.

Eins má nefna það sem kemur fram í i-lið, að starfsemi félags teljist ekki óæskilegt í umhverfislegu tilliti. Þetta er gríðarlega matskennt og getur leitt til mikilla — ég leyfi mér að segja — deilumála þegar kemur að því að framkvæma það.

Þetta vildi ég benda hv. iðnaðarnefnd á. Eins vildi ég benda á að það þarf að skoða aðeins 9. gr., ekki síst þar sem talað er um skattalegar ívilnanir og fleira sem þeim fylgir. Heimild er til þess að veita a.m.k. tíu mismunandi ívilnanir og valdið til að meta til hvaða úrræða er gripið í hverju tilviki er falið stjórnvöldum. Stjórnvöld munu þannig fá mjög rúmar heimildir til þess að velja úr verkefni sem fá náð fyrir augum þeirra og meta með hvaða hætti sé komið til móts við þau.

Sem þingmanni finnst mér að ákvarðanir af þessu tagi eigi frekar að fara í gegnum þingið en að vera mat stjórnvalda. Mér finnst að þegar talað er um heimild til þess að veita skattafslætti, heimildir til frestunar á skattgreiðslum og ýmsa aðra mikilvæga skattalega þætti í rekstri fyrirtækja sé þó betra að það sé gert með lagasetningu en með ákvörðun stjórnvalda og opinberrar nefndar, hversu vel sem hún kann að vera mönnuð. Það er einfaldlega lýðræðislegra.

Síðan má auðvitað spyrja hvort þessi aðferð við lagasetningu sé almennt séð tæk, hvort tækt sé miðað við stjórnarskrá að fela stjórnvöldum ákvörðunarvald í svona mikilvægum málum.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins er aðeins vikið að þessu. Í 3. mgr. athugasemdanna segir um frávik frá skattalegum þáttum, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að tilgreina öll slík frávik með tæmandi hætti með vísan til þess að skv. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands skal skattamálum „skipað með lögum“. Þannig má ekki fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann og enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Samkvæmt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar hafa því stjórnvöld takmarkaða heimild til að semja um skattamál hvers og eins fjárfestis sem óskar eftir ívilnun. Sá rammi sem ákvarðar skattskyldu hvers lögaðila verður að liggja fyrir í lögum. Hin tæmandi upptalning í 2. mgr. greinarinnar er því sett fram með hliðsjón af 77. gr. stjórnarskrárinnar en jafnframt að teknu tilliti til þess að stjórnvöld hafi ákveðið svigrúm við samsetningu ívilnana vegna ólíkra fjárfestingarverkefna.“

Það er ágætt að vikið er að þessu en ég verð að játa að ég hef efasemdir um að niðurstaða frumvarpshöfunda sé að öllu leyti rétt í þessu efni. Hún er a.m.k. ekki hafin yfir vafa vegna þess að þó að almennur listi sé yfir tíu mismunandi skattalegar undanþágur eða ívilnanir sem hægt er að veita þá er engu að síður niðurstaðan sú samkvæmt frumvarpinu að stjórnvöldum er heimilt að ákveða hvort og að hve miklu leyti þessum ívilnunum er beitt við skattlagningu hvers og eins aðila. Ég hygg að þetta sé hæpið út frá 27. gr. stjórnarskrárinnar og einnig út frá jafnræðisreglu. Ég legg til að hv. iðnaðarnefnd skoði þetta vandlega í meðförum nefndarinnar vegna þess að ég held að fyrir hendi sé ótvíræður lagalegur vafi á hvort þessi lagalega aðferð sem hér er valin gangi upp.

Að lokum vildi ég nefna eitt atriði, af því að ég rakst á það, að mér finnst þurfa að skoða tímafresti í þessu sambandi. Ef talað er um að beita mismunandi aðferðum eða mismunandi ívilnunum gagnvart mismunandi fyrirtækjum kann að horfa til þess að í sumum atvinnugreinum er fjárfest til mjög langs tíma með mikilli fjárfestingu í mannvirkjum og tækjabúnaði sem ekki er auðvelt að flytja úr stað þegar í öðrum tilvikum er um að ræða tiltölulega hreyfanlega starfsemi. Það kann að vera að sá þáttur þurfi einnig að koma til skoðunar í starfi hv. iðnaðarnefndar.