138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúna til að koma hérna upp vegna mikilla vangaveltna hv. þingmanns um að hér sé hugsanlega um of matskennt ferli að ræða þar sem einstaklingar innan stjórnsýslunnar hafi of mikið vald, ef ég skil hv. þingmann, og hann teldi eðlilegt að þetta færi áfram í gegnum þingið. Við höfðum þetta allt í huga þegar verið var að semja frumvarpið. Það er einfaldlega þannig að okkur eru, eins og hv. þingmaður kom hérna inn á, settar skorður í ýmsu og við þurfum auðvitað að fylgja stjórnarskrá og þess vegna kemur skýrt fram í frumvarpinu að hver og ein ívilnun er algjörlega niðurnegld þannig að það er alveg skýrt hvað hún felur í sér. Leitað var álits prófessors í stjórnskipunarrétti á þessu. Þetta var talið standast þar sem ívilnanirnar í frumvarpinu eru hver og ein algjörlega niðurnegldar.

Síðan er það svo, virðulegi forseti, varðandi áhyggjur hv. þingmanns af því að hér geti verið um of matskennt ferli að ræða, að frumvarpið setur mjög stífar reglur um starfsemi nefndarinnar og um þessa ákvörðun. Bæði er hún bundin af stjórnsýslulögum og kemur skýrt fram í frumvarpinu að kalla þarf eftir ákveðnum arðsemisútreikningum. Í frumvarpinu kemur fram að unnið hafi verið að módeli fyrir slíka arðsemisútreikninga á vegum Fjárfestingarstofu í samstarfi við PricewaterhouseCoopers í Belgíu þannig að skýrt liggur fyrir hvað heimilt verður að gera ef skilyrði sem talin eru upp í frumvarpinu eru uppfyllt, þ.e. stærð fjárfestingarinnar og aðrir (Forseti hringir.) þættir.