138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég held að í rauninni sé hér um ágætismál að ræða, þ.e. verið er að koma fram með einhvers konar almennar reglur um stuðning nýfjárfestingar á Íslandi, reglur sem væntanlega muni þá tryggja það að í kjölfar þessarar lagasetningar muni fjárfestar og þeir sem að slíkum málum koma sitja allir við sama borð, það tel ég vera afar mikilvægt.

Það hafa verið, eins og kom fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra áðan, gerðir samningar um ívilnanir vegna nýfjárfestinga áður á Íslandi, nær undantekningarlaust vegna einhvers konar stóriðju, málmbræðslna eða annars þess háttar. Hér lít ég svo á að í rauninni sé með þessari löggjöf verið að opna fyrir það, með að mínu viti tiltölulega áþreifanlegum hætti, að innlendir fjárfestar geti líka komist að þessu borði, að uppfylltum að sjálfsögðu þeim skilyrðum sem fram koma í frumvarpinu. Það má þá líta á það þannig að hér sé um tækifæri að ræða fyrir þá Íslendinga sem nú eiga fjármagn innan lands eða erlendis og vildu kannski koma með það heim eða setja það í innlent verkefni.

Ég vil beina því til hæstv. iðnaðarráðherra og hv. iðnaðarnefndar hvort ástæða væri til að skoða það í þessu samhengi, þ.e. í samhengi þessa lagafrumvarps, hvort það væru færi til að setja inn skilmerki um einhvers konar siðferðisviðmið í þennan lagatexta. Við getum í sjálfu sér litið á bæði 5. og 25. gr. í þessu sambandi. Í 25. gr. er talað um að hafi sá er notið hefur ívilnunar vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar, er hægt að draga hana til baka. Þarna undir væri þá til að mynda hægt að fella einhvers konar siðferðileg viðmið og það er eins og þingheimi er væntanlega ljóst ekki að ástæðulausu að menn ræða þetta og nefna nú í ljósi þess að fyrir þinginu liggur annar fjárfestingarsamningur, í raun lagagerð þar um, sem snýr að félaginu Verne Holdings, en það hefur klárlega valdið þingmönnum töluverðum heilabrotum með hvaða hætti eigi að taka á þessum tiltekna vanda, þ.e. siðferðisvandanum sem þarna er uppi.

Það væri ágætt að heyra það frá hæstv. iðnaðarráðherra hvort menn sjái á því einhvern flöt að bæta þessum atriðum inn í annaðhvort 5. gr. sem fjallar um skilyrði eða hins vegar 25. gr. sem fjallar um afturköllun ívilnana, hvort þar væri hægt að taka inn ákvæði er lúta að þessu. Í öllu falli að beina því til hv. iðnaðarnefndar að taka þessi mál til umfjöllunar í meðförum nefndarinnar.