138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:47]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp byggir að miklu leyti til á Evrópulöggjöf og þar af leiðandi eru þessi eftirlitsákvæði hluti af því umhverfi. Ég held að hv. þingmaður þekki það örugglega jafnvel og ég og fleiri að ESA er strangt varðandi ríkisaðstoð og þetta fellur auðvitað þar beint undir og hafa verið gerðar ítrekaðar athugasemdir ef menn ganga of langt í þeim eða þá ef menn uppfylla ekki ströngustu skilyrði laga og reglugerða um ríkisaðstoð. Það er því býsna strangt eftirlit að ég tel.

Engu að síður er það rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er auðvitað atriði sem nefndin verður að fara vel í gegnum og taka ákvörðun um hvort nefndin telji þetta fullnægjandi leið. Á sama hátt er ýmislegt í frumvarpinu sem nefndin mun án efa skoða og þetta er eitt af því sem verður að gera.

Ég hlakka til að fylgjast með þeirri umræðu sem fram mun fara í nefndinni en ekki síður vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að ég vona að þetta frumvarp verði að lögum á þessu þingi þannig að við getum örvað nýfjárfestingar í samfélaginu en treyst því að þingnefndin rannsaki svona atriði ef menn sjá ástæðu til.

Enn og aftur til að svara spurningunni: Já, þetta er sambærilegt við önnur Evrópuríki sem byggja á sömu löggjöf.