138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:49]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er kannski við hæfi að ég taki hér til máls í fyrsta skipti á þingi þar sem eru tveir eða þrír í sal, kannski fer vel á að æfa sig með þeim hætti.

Ég fagna því yfirleitt alltaf þegar gripið er til ráðstafana sem miða að því að lækka skatta, hvort heldur er á fyrirtæki eða einstaklinga. Ég skal að vísu viðurkenna það að ég hef ekki náð að kynna mér frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, sem við ræðum hér, að fullu en hef þó lesið allar lagagreinar frumvarpsins. Ég fagna því frumvarpinu að þessu leyti enda er markmið þess að örva fjárfestingar í íslensku atvinnulífi og veitir ekki af.

Það þarf hins vegar að gera sér nokkra grein fyrir því hvaða áhrif lagasetning af þessu tagi getur haft á aðrar fjárfestingar hér á landi. Gert er ráð fyrir því að einungis verði veittar ívilnanir fyrir nýfjárfestingar, sem þýðir í raun að þeir sem eru tilbúnir til þess að leggja fjármuni, hætta fjármunum sínum í fjárfestingar, munu taka það sérstaklega með í reikninginn hvaða ívilnanir þeir fá af nýfjárfestingu og það getur haft áhrif á aðrar fjárfestingar. Þannig er sú hætta fyrir hendi að aðilar sem standa frammi fyrir því að leggja t.d. fé í fyrirtæki sem er starfandi og sú fjárfesting er arðbær fyrir viðkomandi fjárfesti, fyrirtæki og starfsmenn og fyrir þjóðfélagið í heild, mun arðbærari en nýfjárfesting, þá kann að vera að viðkomandi fjárfestir eða fjárfestar velji nýfjárfestinguna, sem er þjóðhagslega ekki eins hagkvæm, út af þessum skattaívilnunum. Þess vegna tel ég að frumvarp af þessu tagi kunni í rauninni að ganga gegn göfugum markmiðum frumvarpsins.

Þess vegna held ég að hæstv. ráðherra og iðnaðarnefnd ættu að huga að því hvort ekki sé miklu skynsamlegra að hafa almennar vel skilgreindar leikreglur er viðkoma skattamálum allra fjárfestinga og ekki verði mismunað á milli þess hvort um nýfjárfestingu er að ræða eða um fjárfestingu í starfandi fyrirtæki o.s.frv. Ég hygg að það sé skynsamleg ráðstöfun vegna þess að markmiðið er jú að auka fjárfestingar og atvinnusköpun á Íslandi. Ég held því að besta leiðin til þess sé að hafa almenna löggjöf og besta leiðin til að örva fjárfestingar sé að lækka skatta og lækka vexti þannig að aftur verði arðbært að fjárfesta í atvinnurekstri.