138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:56]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þetta. Það eina sem ég er að segja er að til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað og örva fjárfestingu á ekki að mismuna aðilum með neinum hætti. Það skiptir ekki öllu hvort um er að ræða nýfjárfestingu eða fjárfestingu í starfandi fyrirtæki ef við náum markmiðum okkar.

Það sem ég segi er: Örvum fjárfestingar með því að keyra vexti niður, með því að útbúa og hafa hér eðlilegt, sanngjarnt skattumhverfi sem hvetur menn til fjárfestinga. Bankar og innlánsstofnanir eru fullar af fjármunum sem liggja og gera ekki neitt og það þarf að koma þessum peningum í vinnu og það er gert fyrst og fremst með því að lækka vexti og hafa hér skattkerfi sem er örvandi fyrir fjárfestingar og afnemum gjaldeyrishöftin um leið.