138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

skipan ferðamála.

575. mál
[17:57]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, með síðari breytingum. Þingskjalið hefur nú verið prentað og hefur legið fyrir þingi í nokkrar vikur.

Markmið frumvarpsins er einkum tvenns konar. Annars vegar að koma til móts við ferðaskrifstofur með tímabundinni undanþágu til lækkunar tryggingarfjárhæðar ferðaskrifstofa vegna samdráttar í sölu ferða sem orðið hefur vegna mikilla breytinga á neytendamarkaði án þess þó að skerða þá neytendavernd sem lögunum er ætlað að tryggja.

Hins vegar er frumvarpinu ætlað að skerpa á skilyrðum leyfisveitinga og veita iðnaðarráðherra heimild til að setja í reglugerð frekari ákvæði um leyfisveitingar en nú er. Sem dæmi get ég nefnt að við erum að fara mjög vel yfir allar öryggiskröfur og gæðakröfur í ferðaþjónustunni og því er mikilvægt að iðnaðarráðherra hafi heimild t.d. að fara fram á að gerðar séu ákveðnar öryggiskröfur þegar veitt eru starfsleyfi.

Í fyrsta lagi lúta breytingarnar að því að skylda sé að leggja fram ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi og hins vegar að umsækjendur um ferðaskrifstofu- og ferðaskipuleggjendaleyfi þurfi að búa yfir nægjanlegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt að mati Ferðamálastofu.

Í öðru lagi er lagt til að Ferðamálastofu verði heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu.

Í þriðja lagi að ráðherra verði veitt rýmri heimild til að setja ákvæði í reglugerð, m.a. um eftirlit með leyfisveitingum, flokkun leyfa og öryggismál.

Það er svo, virðulegi forseti, að vegna margbreytileika afþreyingarfyrirtækja í ferðaþjónustu er hér lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að setja ákvæði í reglugerð m.a. um flokkun leyfa, öryggismál og eftirlit. Það er mjög mikilvægt að við þessa vinnu verði haft samráð við fagaðila í ferðaþjónustunni við setningu slíkrar reglugerðar til að tryggt verði að framkvæmdin verði sem líkust milli ferðaþjónustuaðila. Þannig má ferðamönnum verða ljóst að sömu kröfur eru gerðar til öryggis hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Íslandi. Nú er þetta auðvitað hluti af gæðamálum.

Í fjórða og síðasta lagi er lagt til að Ferðamálastofu verði veitt heimild til að veita tímabundna undanþágu varðandi mat á tryggingarfjárhæð ferðaskrifstofa fyrir árið 2010 að uppfylltum skilyrðum um verulegan samdrátt á sölu alferða og tilgreind eru sérstaklega þau gögn sem ferðaskrifstofa verður að leggja fram vegna undanþágunnar.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu barst iðnaðarráðuneytinu á árinu 2009 töluverður fjöldi kæra vegna ákvarðana Ferðamálastofu um fjárhæðir trygginga vegna alferða. Í kjölfar þess var ákveðið að skipa nefnd af hálfu iðnaðarráðherra sem m.a. var ætlað að leggja fram breytingar á ákvæðum laganna. Nefndin er skipuð fulltrúum iðnaðarráðuneytisins, Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna auk eins endurskoðanda. Iðnaðarráðherra fór einnig fram á það við nefndina að skoðuð yrðu ákvæðin um leyfisveitingar með tilliti til öryggis- og gæðakrafna.

Gagnrýni ferðaskrifstofa vegna útreiknings á fjárhæð trygginga vegna alferða hefur m.a. beinst að því að sú regla að miða við veltu ársins á undan, þegar það á við, við útreikning fjárhæðarinnar, komi sér afar illa núna í kjölfar efnahagskreppunnar þar sem sala alferða til útlanda hefur dregist mjög mikið saman milli ára. Enn fremur hefur verið erfiðara fyrir ferðaskrifstofur að fá bankaábyrgðir fyrir umræddum tryggingum.

Við síðustu ákvarðanir Ferðamálastofu, sem voru byggðar á lögunum eins og þau eru í dag um tryggingarfjárhæðir vegna alferða, hafa ferðaskrifstofur í einhverjum tilfellum sætt verulegri hækkun á tryggingum, um tugi eða jafnvel hundruð milljóna, milli áranna 2009 og 2010, þrátt fyrir samdrátt í rekstri milli ára, fækkun ferða og fækkun farþega. Ástæðan er sú að tryggingar fyrir árið 2010 eru metnar út frá veltutölum ársins 2008 sem var mjög gott starfsár ferðaskrifstofa en eins og við vitum hefur orðið mikill samdráttur.

Þess vegna er lagt til, virðulegi forseti, að sett verði inn þetta undanþáguákvæði en endurskoðunarnefndin sem skipuð var taldi mikilvægt að koma strax inn með þessa breytingu. Endurskoðunarnefndin mun halda áfram að skoða þessi tryggingamál og það skiptir auðvitað máli að við séum undir svona búin, þ.e. að við vitum að breytingar verða á eftirspurn eftir slíkum alferðum og því er mikilvægt að við reynum að finna varanlega lausn á þessu máli þannig að ekki komi til slíkra undanþágna aftur eða a.m.k. er nefndinni ætlað að vinna tillögur í þá veruna.

Ég legg til að málið fari núna til hv. iðnaðarnefndar til frekari umfjöllunar.