138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

upprunaábyrgð á raforku.

576. mál
[18:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 30/2008 í því skyni að innleiða í íslenskan rétt ákvæði um skyldu til útgáfu upprunaábyrgða á raforku frá samvinnslu með góða orkunýtni sem er að finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB frá 11. febrúar 2004 um að auka samvinnslu raf- og varmaorku sem byggist á eftirspurn eftir notvarma á innri orkumarkaðinum. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2006.

Markmið tilskipunarinnar er að auka orkunýtni og bæta orkuöryggi með því að skapa ramma um aukna samvinnslu raf- og varmaorku, sem byggist á góðri orkunýtni og eftirspurn eftir notvarma, að teknu tilliti til sérstakra innlendra aðstæðna, einkum veðurfars- og efnahagsskilyrða, og draga þar með úr notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti. Í tilskipuninni er m.a. að finna ákvæði um setningu á samræmdum nýtniviðmiðunum við samvinnslu raf- og varmaorku, skyldu aðildarríkja til að sjá til þess að hægt sé að ábyrgjast uppruna raforku frá samvinnslu, greiningu á innlendum möguleikum á notkun samvinnslu, kröfur varðandi stuðningskerfi við samvinnslu, stjórnsýslumeðferð og skýrslugjöf. Einungis ákvæði tilskipunarinnar um upprunaábyrgðir kalla á lagabreytingar.

Í þeim ríkjum þar sem stór hluti raforkuvinnslu á sér stað með jarðefnaeldsneyti skiptir miklu máli að nýta sem best það eldsneyti sem notað er til orkuframleiðslunnar. Samvinnsla á raforku og hita getur haft töluverða þýðingu við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka orkuöryggi þar sem bætt nýting dregur úr þörf á innflutningi jarðefnaeldsneytis. Raforkuvinnsla á Íslandi byggist hins vegar nánast einvörðungu á nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en jarðefnaeldsneyti er fyrst og fremst notað í varaaflsstöðvum og aflstöðvum á svæðum sem eru utan samtengds raforkukerfis landsins. Þörf fyrir varmaorku er hins vegar nú þegar að stærstum hluta mætt með orku frá jarðhitasvæðum. Að þessu sögðu verður þó að taka fram að samvinnsla raf- og varmaorku er því vart raunhæfur kostur hér á landi nema í jarðvarmavirkjun þar sem slík samvinnsla fer nú þegar fram í þeim virkjunum þar sem það er hagkvæmt. Tilskipunin tekur hins vegar ekki til samvinnslu raforku og varma með jarðhita og hefur því takmarkaða þýðingu hér á landi, nema mögulega á afmörkuðum svæðum utan samtengds raforkukerfis.

Breytingartillögur frumvarpsins fela í sér að lagt er til að lögum nr. 30/2008 verði breytt þannig að ákvæði um upprunaábyrgðir sem Landsneti hefur verið falið að gefa út nái bæði til ábyrgða vegna raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, svo sem nú er, sem og ábyrgða vegna raforku frá samvinnslu.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.