138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:24]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því áðan að við erum að vinna að því að frumvarpið geti komið fram á þessu þingi. Það má kannski virða hv. þingmanni það til vorkunnar að hann hefur ekki átt hér sæti síðastliðið ár en þessu þingi verður ekki formlega slitið fyrr en í haust, á haustþingi, á septemberþingi. Gildistaka þessara laga mun eiga sér stað á miðju því tímabili, þ.e. 1. júlí nk.

Ég sagði áðan í ræðu minni að ég teldi eðlilegt miðað við alla þá vinnu við frumvarpssmíð sem hefur átt sér stað á undanförnum fjórum árum með aðkomu allra flokka og fjölda sérfræðinga og er nú á lokastigi að 1. júlí vofði ekki yfir þeirri vönduðu vinnu sem þarf að fara fram í nefnd, af því að gildistakan hittir á mitt tímabil. Virðulegi forseti. Ég held að á þessum fjórum árum hafi öllum verið ljóst að þessi lög mundu ekki taka gildi.

Virðulegi forseti. Við erum að gera það eina sem er eðlilegt og rétt. Þegar fyrir liggur að þessi lög eiga ekki að taka gildi, ekki er pólitískur vilji til þess, þá er engin ástæða til að fresta þeim eina ferðina enn. Einfaldast er að fella þau brott og taka til vandaðrar umfjöllunar afrakstur áralangrar þverpólitískrar vinnu, m.a. um smíði nýrra vatnalaga sem vonandi verða þá byggð á grunni sáttar til lengri tíma vegna þess að það voru lögin frá 2006 ekki. Að fresta gildistökunni eina ferðina enn væri einfaldlega hlægilegt í ljósi þess sem gerst hefur að undanförnu og fullkomlega eðlilegt að fella lögin brott þegar menn sjá ekki fyrir sér að þau taki gildi. (Forseti hringir.) Lögin frá 1923 hafa verið í gildi allan tímann og verða það áfram þannig að lögin frá 2006, sem aldrei hafa tekið gildi, hafa aldrei haft neina þýðingu (Forseti hringir.) fyrir vatnalöggjöf á Íslandi.