138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Eins og kannski kom fram í andsvörum mínum við ræðu hæstv. iðnaðarráðherra furða ég mig töluvert á þeim vinnubrögðum sem hæstv. ráðherra viðhefur í tengslum við þetta mál og vatnalöggjöfina að öðru leyti. Það kom mér á óvart að hæstv. ráðherra skyldi stökkva svona upp á nef sér við þær athugasemdir sem ég gerði við það verklag sem viðhaft hefur verið af hennar hálfu og ráðuneytisins í þessu máli. Þær hártoganir sem hér var farið í komu mér á óvart og mér var bent á að mér væri kannski vorkunn vegna þess að ég hefði ekki setið á þingi síðasta árið. Ég hef verið þingmaður í ein sex ár og þekki ágætlega til þingskapalaganna og þeirra leikreglna sem hér gilda og hef einnig töluvert lengi komið að vinnu að löggjöf um vatnamál þannig að ég tel mig þekkja málaflokkinn ágætlega. Ég minnist þess ekki að hæstv. ráðherra eða ráðherrar í ríkisstjórn hafi lagt til að frumvörp sem hafa verið samþykkt á Alþingi séu afnumin með sérstöku frumvarpi án þess að lagt sé fram heildstætt frumvarp sem ætlað er að gilda til frambúðar í þeim málaflokki sem fjallað er um hverju sinni. Ég hefði talið að miklu eðlilegra væri, eins og venja er í löggjafarstarfinu, að þegar menn vilja gera breytingar eða lögfesta nýjan lagabálk á hverju sviði sé það gert á sama tíma og eldri lögin eru felld úr gildi. Því er ekki að heilsa hér heldur lagt fram frumvarp um afnám vatnalaga frá árinu 2006 og vísað til þess að í iðnaðarráðuneytinu sé á fullu vinna sérfræðinga sem ekki er gefið upp hverjir eru og óljóst er hvenær afrakstur þeirrar vinnu mun líta dagsins ljós hér á þingi. Það eru einungis óljósar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra um það að frumvarpið verði lagt fram á þinginu innan tíðar og að vonum samþykkt í kjölfarið.

Í greinargerð með þessu frumvarpi segir frá því starfi sem unnið hefur verið á síðustu árum á vettvangi þingsins og stjórnvalda varðandi endurskoðun vatnalaga og við munum það öll sem hér vorum að mikill styrr stóð á milli þáverandi ríkisstjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka um hvernig haga ætti löggjöf um vatnamál. Sett var á mikið málþóf á sínum tíma til að koma í veg fyrir að tilteknar breytingar yrðu gerðar á vatnalögunum, að vatnalöggjöfin yrði færð í átt til nútímans og að sú löggjöf sem gilt hefur og reynst ágætlega, vatnalögin gömlu frá 1923, yrði færð til dagsins í dag, enda mörg ákvæði þar úrelt og ekki í samræmi við þann veruleika sem við búum við í íslenskri stjórnsýslu. Ég tók sjálfur virkan þátt í þeirri vinnu.

Þar segir frá því að þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafi skipað svokallaða vatnalaganefnd til að yfirfara vatnalöggjöfina. Sú nefnd starfaði ágætlega undir forustu þáverandi hv. þm., Lúðvíks Bergvinssonar, og átti ég sæti í henni ásamt hæstv. iðnaðarráðherra. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frá setningu vatnalaga árið 2006 hefur verið unnið mikið starf við endurskoðun þeirra og fyrir liggur tillaga nefndar um frumvarp til nýrra vatnalaga. Tillagan byggist m.a. á starfi nefndar um endurskoðun vatnalaga sem skipuð var af iðnaðarráðherra og í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka, auk fulltrúa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra“

Af þessum tillögutexta virðist sem hæstv. ráðherra hyggist fyrir eða muni a.m.k. að hluta fara eftir þeim tilmælum sem fram koma í skýrslu vatnalaganefndarinnar en það er hins vegar óljóst af efni frumvarpsins hvort það verður gert að öllu leyti eða ekki. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Unnið er að kynningu og frágangi frumvarpa sem byggjast á frumvarpi nefndarinnar og nefndar um innleiðingu vatnatilskipunar í iðnaðar- og umhverfisráðuneytum svo leggja megi þau fram á yfirstandandi þingi. Mikil vinna hefur átt sér stað við undirbúning nýrra vatnalaga og því er ekki talin ástæða til að fresta lögunum frá 2006 heldur eðlilegast að fella þau úr gildi.“

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þó svo að ég hafi setið í þessari vatnalaganefnd sem skilaði ágætri niðurstöðu og ágætri skýrslu og þó svo að vinna sé í gangi í iðnaðarráðuneytinu við það að smíða ný vatnalög sé hreinlega ekki eðlilegt að fella lögin frá 2006 úr gildi. Við verðum að fá að sjá afrakstur þeirrar vinnu sem vikið er að í greinargerð með frumvarpinu áður en við tökum afstöðu til þess hvort við viljum lögfesta það frumvarp sem væntanlegt er í íslensk lög eða hvort við viljum fella frestunarákvæði laganna frá 2006 úr gildi og láta þau gilda. Það er a.m.k. sá réttur sem ég tel að þingmenn á löggjafarþinginu eigi að hafa, þ.e. að vega og meta hver fyrir sig hvort þeir aðhyllist efnisákvæði laganna frá 2006 eða felli sig við það frumvarp sem væntanlegt er frá hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum að í þessari umræðu. Þetta er risastórt mál og hagsmunirnir geysilegir fyrir allan almenning, ekki síst landeigendur sem eiga réttindi sem byggja á þeim fasteignum sem þeir eiga. Þessir þættir þarfnast mjög nákvæmrar skoðunar. Þess vegna tel ég að miklu skynsamlegra væri að ræða framtíðarfyrirkomulag vatnalöggjafarinnar með öll gögn í hendi áður en farið er í einhvern bútasaum eins og þann sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til. Ég tel að skynsamlegast væri fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að draga þetta frumvarp til baka, setja það í salt og einhenda sér í það að leggja fram á þinginu nýtt frumvarp til vatnalaga eins og boðað er í greinargerð með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Þar verði undir sú skýrsla sem ég og hæstv. iðnaðarráðherra unnum ásamt öðrum nefndarmönnum í vatnalaganefnd þannig að hægt sé að taka þessa umræðu í eitt skipti fyrir öll, heildstætt og á grundvelli þeirra miklu gagna og miklu vinnu sem lögð hefur verið til grundvallar í þessu máli í ágætu samstarfi allra stjórnmálaflokka. Auðvitað er það von mín að einhver samstaða náist um það með hvaða hætti við viljum haga löggjöf á þessu sviði og ýmis merki voru um að það mundi takast í störfum vatnalaganefndar en með því að fara fram með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir nú óttast ég að verið sé að tefla þeirri ágætu sátt sem þar náðist í töluverða tvísýnu.