138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við eigum að taka slíka umræðu í eitt skipti fyrir öll heildstætt í þinginu byggða á þeim gögnum sem unnin hafa verið á undanförnum árum í gegnum það starf sem rakið er í greinargerð með frumvarpinu og hv. þingmaður kom inn á. Það var að mörgu leyti gríðarlega gott og öflugt starf, um það er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. En ég er líka jafnhjartanlega ósammála honum um að hugsanleg niðurstaða slíkrar vinnu geti nokkurn tíma verið valkostur við það frumvarp sem lagt var fram og samþykkt á árinu 2006. Ég lít svo á að það ferli sem við erum búin að fara í gegnum á undanförnum árum hafi leitt það í ljós að frumvarpið, sem var samþykkt hér og hefur ekki enn tekið gildi og hefur verið frestað tvisvar, verði aldrei valkostur ef menn ætla að fara í gegnum málin með heildstæðum hætti og ná einhverri samstöðu um það. Það blasir við þegar tekin er sú ákvörðun að fella þau brott, hreinsa þau út þannig að þau séu ekki lengur inni í myndinni vegna þess að það er niðurstaða mín að þau verði aldrei nokkurn tíma valkostur, það verði aldrei valkostur að þau taki gildi. En ég heyri að hv. þingmaður er mér ósammála og það er allt í lagi, en ég lít svo á að ákvörðunin sem hafi blasað við mér hafi verið sú að fresta gildistökunni enn eina ferðina eða einfaldlega að fella þau brott. Hreinlegast er að fella þau brott þegar ekki er ætlunin að þau taki gildi.

Virðulegi forseti. Ég vona að fram fari góð efnisleg umræða um þetta mál þegar það kemur fyrir þingið sem verður von bráðar eins og ég hef kynnt.