138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:32]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil horfa á þetta fyrir landið í heild. Það sem ég nefndi áðan er að þetta er framlag, þarna erum við að tryggja vaxtarsamningana í sessi. Það er nýbúið að endurnýja vaxtarsamningana við þessi svæði, eins og t.d. Suðurland, þeim samningi var töluvert breytt þannig að hann hefur stækkað. Breytingar hafa orðið á hlutföllum á milli samninganna þar sem tekið er tillit til íbúaþróunar m.a. og líka efnahagslegrar stöðu einstakra svæða. Sömuleiðis var Höfn að koma inn í Suðurlandssamninginn þannig að þar eru meiri fjármunir inni, svo við tökum það svæði sem hv. þingmaður nefndi hér.

Þessi byggðaáætlun er framlag okkar núna og áherslur inn í Sóknaráætlun 2020 og kjarninn í þeirri vinnu, kjarninn í þeirri áætlun og kjarninn í því framlagi eru vaxtarsamningarnir sem við teljum að hafi fengist svo góð reynsla af að við erum nýbúin að endurnýja þá. Við ætlum að halda þeim áfram og það er mjög mikilvæg yfirlýsing vegna þess að það hefur oft verið í óvissu hvort menn ætli að halda þeim áfram. Ég sé hér hv. þm. Gunnar Braga, hann hefur t.d. spurt mig hver ætlun okkar væri með vaxtarsamningana. Í þessari byggðaáætlun eru þeir negldir inn sem stefnumörkun okkar og framlag inn í þetta. Og ef eitthvað er, viljum við sjá þá stækka, við viljum sjá meiri fjármunum varið til þeirra í framtíðinni, við viljum sjá stjórnsýslu þar sem ákvarðanir eru teknar sem næst heimabyggð og af heimamönnum sjálfum. Það er stóra stefnumörkunin.

Síðan get ég talið hér til landnýtingaráætlun, ég get talið til áætlun, sem er ný í þessu, þar sem gríðarleg áhersla er lögð á ferðaþjónustuna og hægt er að lesa um í þeim verkefnum sem talin eru til í ályktuninni sjálfri.