138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að koma hér upp og fagna því að gerður hefði verið vaxtarsamningur við Suðurnesin nýverið, fyrir aðeins örfáum mánuðum, vegna þess að það felur í sér að þá erum við búin að loka hringnum við gerð vaxtarsamninga um land allt, samningarnir eru orðnir átta.

Hvað fela þeir í sér? Þeir fela í sér akkúrat það sem hv. þingmaður kallaði eftir hér og var að gefa ríkisstjórninni ráð um að gera, sem er að færa ákvarðanatöku um ráðstöfun fjár í hendur heimamanna. Það er akkúrat það sem vaxtarsamningarnir fela í sér, að færa stjórnsýsluna og ákvarðanatöku sem næst heimamönnum.

Virðulegi forseti. Ég hélt í alvöru talað að hv. þingmaður ætlaði að koma upp og fagna a.m.k. þeirri aðgerð vegna þess að Suðurnesjamenn hafa svo sannarlega fagnað þeirri aðgerð að vaxtarsamningur hafi verið gerður við þá.

Fjölmargt er í þessu líka varðandi atvinnuuppbyggingu. Við ræddum hér t.d. ívilnanafrumvarp fyrr í dag þar sem horft er sérstaklega til landsbyggðarkjördæmanna þriggja. Hvað felur ívilnanafrumvarpið í sér? Það felur það í sér að nú eru atvinnuþróunarfélögin á svæðinu komin með tæki í hendurnar og geta farið af stað í samstarfi við sveitarstjórnir og heimamenn og kynnt fyrir fjárfestum kosti síns svæðis á grundvelli þessa frumvarps. Það er tækið sem þessir aðilar eru komnir með í hendur vegna þess að það liggur fyrir hvað er í boði hér á landi í ívilnunum þegar um nýfjárfestingar er að ræða í staðinn fyrir að sveitarfélögin og atvinnuþróunarfélögin séu í algjörri óvissu um hvað ríkinu dettur síðan í hug á endanum að semja um við þessa aðila í gegnum fjárfestingarsamning.

Þarna nefni ég bara tvö dæmi. En varðandi Verne er sá samningur, eins og hv. þingmaður veit, í iðnaðarnefnd og ég nefndi í dag að ég vonaðist til að þeirri meðferð færi að ljúka. Ég hef boðið fram, nú sem endranær, stuðning iðnaðarráðuneytisins ef óskað er eftir því af hálfu þingsins til að svo megi verða sem allra fyrst.