138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara til að hafa hæstv. ráðherra mjög ánægða skal ég fagna því að verið sé að ljúka vaxtarsamningahringnum og get alveg tekið undir gleði hæstv. ráðherra varðandi það. Ég vil þó benda ráðherranum á að vaxtarsamningar eru ekki eitthvað sem er að spretta upp úr þessari þingsályktunartillögu heldur eru vaxtarsamningar og það starf sem unnið hefur verið eftir í þeim farvegi nokkuð sem er eldra og sett var af stað í tíð fyrri ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn m.a. átti aðild að, svo því sé haldið til haga, og við höldum ekki að vaxtarsamningarnir séu að verða til hér.

Ráðstöfun fjár til heimamanna, sagði hæstv. ráðherra, og það er nákvæmlega það sem ég hef efasemdir um. Það er ekki verið að kalla eftir því sérstaklega að heimamenn fái, þó að menn afþakki það ekki, að ráðstafa fé sjálfir. Það sem fólk vill fá að gera, og það var það sem hæstv. ráðherra talaði um, er að það geti kynnt sín svæði og haft forgöngu um það. Hæstv. ráðherra til upplýsingar er það bara stöðugt í gangi. Ef við höldum okkur við Suðurnesin þekki ég ekkert svæði betur þar sem menn eru að því á hverjum einasta degi og það er í sambandi við alls konar verkefni, hvort sem þau heita gagnaver, kísilver, álver í Helguvík, heilsutengd ferðaþjónusta, alls konar hlutir sem heimamenn eru einmitt að berjast fyrir. Það sem ég var að segja er að heimamenn þurfa ekki einhvern vaxtarsamning og áætlun um samþættingu áætlana til að gera það. Þeir þurfa bara að fá að vera í friði og að ekki sé verið að bregða fæti fyrir ákvarðanir sem þeir væru löngu búnir að taka sjálfir. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tali hér um að heimamenn eigi að fá meiri yfirráð yfir sínum svæðum vegna þess að það er nákvæmlega það sem þeir kalla eftir. Ég vona svo sannarlega að ekki þurfi að gera áætlun um það, (Forseti hringir.) heldur að það sé bara komið á dagskrá núna.