138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í greinargerð með tillögunni sem hér liggur fyrir, tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 segir, með leyfi forseta:

„Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.“

Þetta segir í 7. grein laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun. Þegar maður les þetta þá spyr maður sig: Hver er þá stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og hver eru markmið hennar í þeim efnum? Ég skal viðurkenna, virðulegi forseti, að það fannst mér ekki skýrt eftir að hafa litið yfir þetta. Því er hins vegar svarað í athugasemdum með tillögunni og þar segir að svo sé litið á að þessi tillaga sem hér liggur fyrir sé fyrst og fremst innlegg í Sóknaráætlun 20/20 sem nú er unnið að. Þetta er því vinnugagn í vinnu sem stendur yfir. Þá spyr maður þegar maður leitar eftir því hvaða áherslur séu á döfinni: Eftir hverju getum við unnið? Hver er staðan á meðferð þingsins á Sóknaráætlun 20/20?

Lögð var fram þingsályktunartillaga varðandi það mál. Þeirri tillögu var vísað til allsherjarnefndar, þar liggur málið órætt. Enn í dag eru þeir aðilar sem reyna að skyggnast inn í framtíðina eftir fastákveðinni mótaðri stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði að bíða eftir nákvæmari skilgreiningu á þeirri vinnu sem ríkisstjórnin vill fara í. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeim verkefnum sem hafa verið mótuð eða þeim verkefnum sem haldið er áfram og hafa reynst vel eins og var rætt hér um varðandi vaxtarsamninga. Réttilega var bent á að þeir eru ekki að verða til núna, það er verið að þróa þetta form víðar með þeim hætti að færa það út yfir fleiri landshluta. Það er gott ef það hefur gefist vel sem ég held að sé veruleikinn. En það er ekkert nýtt og á þeim grunni gera menn ekki áætlanir um vinnubrögð sín til lengri tíma og það er það sem maður kallar sérstaklega eftir.

Ef maður ber þessa byggðaáætlun — ef við getum kallað hana það — saman við byggðaáætlanir sem áður hafa komið fram er á þeim töluverður munur þó að ekki sé nema í því formi að sú byggðaáætlun sem hér liggur fyrir er afskaplega stutt. Texti þingsályktunartillögunnar er ekki nema rétt ein og hálf blaðsíða og restin af þessu gagni eru athugasemdir með tillögunni og í þeim athugasemdum eru þau verkefni og þær aðgerðir sem rætt er um að öðlist eitthvert gildi með samþykkt tillögunnar. Þær munu ekki verða hluti af þeirri samþykkt sem gerð verður. Þetta er gagn með þeirri þingsályktunartillögu sem verður væntanlega borin upp á endanum og samþykkt þannig að gildi þeirra aðgerða — 31 aðgerð er hér tilgreind — má draga í efa. Þetta eru góð og skemmtileg verkefni — ég ætla ekki að gera lítið úr því — misskemmtileg að vísu og misgóð eins og gengur, sum ný, önnur úr sér gengin og verið að ýta áfram, oft ekki með öðrum hætti en þeim að halda einhverjum við efnið sem hann hefur dundað við mörg undanfarin ár. En það er bara gangurinn í þessu.

Það sem ég vildi vekja athygli á er uppsetningin sem hér liggur fyrir, þ.e. þetta er ekki aðgerðabundin byggðaáætlun eins og við erum vön heldur er öllu vísað inn í ferli sem enn er í mótun. Við skulum virða þá tilraun sem er gerð og sjá hvað út úr henni kemur. Í mínum huga vil ég hins vegar tengja þetta þeim fjármunum sem varið er til þess að framkvæma byggðaáætlun.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að gert er ráð fyrir um 320 milljónum á fjárlögum í þetta og þar af fara um 200–220 milljónir í vaxtarsamningana og þá standa út af um 100 milljónir á hverju ári. Þær dekka ekki þau verkefni sem hér er lagt til að farið verði í, frá því er langur vegur. Ég er enn mjög efins um að tillagan sem liggur fyrir kalli ráðuneyti sem þessu tengjast með þeim hætti að borðinu að það beri einhvern ávöxt. Skilin á milli ráðuneyta varðandi þessi verkefni eru mjög skýr og reynslan segir okkur að illa hafi gengið að fá þau til samstarfs og ég sé það ekki breytast. Meginverkefnið, eins og þetta liggur fyrir, eru þessar aðgerðabundnu tillögur sem koma fram í athugasemdunum við tillöguna. Þær hafa ekki neina fjárhagslega merkingu, þ.e. við sjáum enga krónutölu liggja til grundvallar fullnustu þessa verkefna.

Ég vil nefna í tengslum við þetta að oft er rætt um byggðaáætlunina sem verkfæri fyrir landsbyggðartútturnar svokölluðu til að vinna að sínum hugðarefnum. Ég vil leggja áherslu á að þetta er tæki sem á að nýta til þess að horfa til landsins alls. Mikil umræða hefur verið um þetta, sérstaklega undanfarinn áratug. Hvers vegna skyldi það vera? Í mínum huga kemur ágætlega fram í athugasemdum við þessa örstuttu þingsályktunartillögu hver ástæðan fyrir þessari hörðu umræðu landsbyggðartúttnanna hefur verið. Þar kemur fram að á árunum 2000–2007 fjölgaði störfum í landinu öllu um 20.700, á þessum örfáu árum. 21.100 störf urðu til á höfuðborgarsvæðinu svokallaða en þeim fækkaði um 400 úti á landi. Þetta er grunnurinn að óvissu og kröfu landsbyggðarjálkanna — við viljum fá annað heiti á þetta — fyrir því að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða sem þeir hafa sett fram í ljósi þess að þeir hafa verulegar áhyggjur af búsetuþróuninni í landinu öllu.

Nú liggur líka fyrir í þessum ágætu athugasemdum við þingsályktunartillöguna að frá haustmánuðum ársins 2008 til aprílloka á síðasta ári hafi 15.000 störf tapast og ætla má að þar af séu um 11.000 störf á höfuðborgarsvæðinu og 4.000 úti á landi. Umræðan síðustu missirin hefur oft á tíðum verið í þá veru að beina eigi kröftunum að því að byggja upp í staðinn fyrir þessi 11.000 störf sem fóru og geyma landsbyggðarjálkana. Þá erum við í nákvæmlega sömu stöðu og við höfum verið í umræðum á milli landsbyggðar og höfuðborgar frá árinu 2000. Ég spyr ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra eftir því: Hverjar eru áherslur ríkisstjórnarinnar í því efni að taka á þessum þætti máls?

Ég hef engan áhuga á því að ræða sérstaklega einstök svæði núna eða einstök verkefni, mér finnst þetta stóra málið: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Ég get alveg svarað því hér: Jú, hún liggur í óræddri þingsályktunartillögu í allsherjarnefnd Alþingis. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessu stóra máli er sem sagt engin, hún liggur ekki fyrir. Ég er alveg viss um að einstaka stjórnarþingmenn eða ráðherrar hafa sínar skoðanir á þessu. Við getum alveg átt skoðanaskipti við þá ágætu einstaklinga um einstök atriði í hugrenningum þeirra en allir sem að byggðamálum vinna í landinu kalla eftir skýrri sýn ríkisstjórnarinnar út frá þessari stóru grundvallarspurningu. Við munum ekki komast út úr umræðunni um slaginn á milli landsbyggðar og höfuðborgar fyrr en henni er svarað.