138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa þó að ég sé allur af vilja gerður að svara hv. þingmanni að ég get ekki skotið á hvað þetta kostar. Það fylgir þessu að sjálfsögðu engin kostnaðarumsögn.

Varðandi þá fjármuni sem eru til framkvæmdar byggðaáætlunar er rétt að ítreka þær tölur sem hér hafa verið nefndar. Það eru rétt rúmar 300 millj. kr. á ári. Bróðurparturinn af því fer í vaxtarsamningana og það eitt liggur fyrir að fjármunir í þessi verkefni voru skornir niður við fjárlagagerð fyrir árið 2010, með öðrum orðum lækkaðir, en ég man það eitt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2010 var samþykkt á síðustu stigum fjárlagagerðar 25 millj. kr. fjárveiting til þess að hrinda af stað og fjármagna þetta svokallaða verkefni 20/20, Sóknaráætlunina. Ég veit til þess að ráðinn hefur verið starfsmaður í forsætisráðuneytið til að sinna því. Þetta er gert á meðan við drögum úr þeim góðu þáttum sem vaxtarsamningarnir hafa náð fram að flestra mati þannig að áherslan af hálfu stjórnarmeirihlutans hefur fremur verið að leggja aukna fjármuni í að reyna að búa til heildstæða stefnu, sem ég tel út af fyrir sig gott en deili hins vegar ekki skoðun þeirra á að það sé rétta leiðin. Ég hefði fremur talið að við ættum að einbeita okkur að því að vinna úr gögnum sem fyrir lægju.