138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki deilt skoðunum hæstv. ráðherra þegar hún fullyrðir að ríkisstjórnin hafi stefnu í byggðamálum. Stefnan getur verið sú að vinna með fólki um allt land að því að móta stefnu, það kann vel að vera. Ég hef tekið þátt í þjóðfundi fyrir Norðausturland og síðan sat ég fund í Háskólanum á Akureyri þar sem gerð var grein fyrir helstu niðurstöðum þjóðfunda um allt land.

Hverjar eru meginlínurnar í þeim hugmyndum sem hafa komið fram? Ég fullyrði að í þeim tillögum sem liggja fyrir er bróðurparturinn þannig úr garði gerður að þær kalla allar á fé úr ríkissjóði. Þetta er uppbygging í menntun, þetta er uppbygging í túrisma númer eitt, tvö og þrjú. Ég varð líka var við á þeim þjóðfundi sem ég sat að umræðunni og flokkuninni á verkefnum var stýrt í ákveðinn farveg til þess að móta og reyna að draga fram ákveðna sérstöðu í viðkomandi landsfjórðungi.

Ég játa heils hugar að ég varð nokkuð undrandi þegar ég sá forgangsröðunina í verkefninu fyrir Norðausturlandið, þ.e. gamla kjördæmið. Verkefni númer eitt sem kom út úr þessu, sem átti að vera best til þess fallið að sá landshluti gæti styrkt sig og náð sér upp, var íþróttabærinn Akureyri og er ég þó þokkalega stoltur af honum. Ég sá bara ekki beina tengingu við vöxtinn og kröfurnar sem gerðar eru og ákallið frá fólki um allt land og í þessu dreifða, stóra kjördæmi. Hvernig í ósköpunum á það að sjá tengingu við íþróttabæinn Akureyri, búandi austur á Raufarhöfn eða Þórshöfn? (Forseti hringir.) Það er erfitt fyrir fólk að tengja þetta þannig að ég segi: Stefnan liggur ekki fyrir og það er langur vegur í að hún verði skýr.