138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á að skilja svar hæstv. ráðherra þannig að þau viðfangsefni sem nefnd eru í þessari áætlun séu þau verkefni sem ekki pluma sig? Ég hélt að það væri nú ekki þannig. Ég hélt að það væri einmitt verið að leggja hér einhverjar meginlínur og þegar við tölum um landsbyggðina vantar stærsta púslið í spilið þegar sjávarútvegsins er nánast að engu getið. Ég var ekki að gera lítið úr því verkefni sem þarna var tínt til en það er hins vegar ekki stóra málið þegar við erum að tala um sjávarútveginn. Ég ætla ekki að hefja hér almenna sjávarútvegsumræðu en það hefði hins vegar að mínu mati verið til þess að styrkja málið, styrkja grundvöll byggðaáætlunarinnar, að við hefðum séð eitthvað handfastara og jákvætt um atvinnugrein í stað þess sem þarna er um að ræða.

Auðvitað veit ég að sjávarútvegurinn stendur sig vel. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að sjávarútvegur, þessi öfluga atvinnugrein, er svona vel samkeppnisfær vegna dugmikils fólks sem þar starfar þrátt fyrir atlögu ríkisstjórnarinnar að atvinnugreininni. Ég geri mér alveg grein fyrir því að sjávarútvegurinn er samkeppnisfær m.a. í þessum samkeppnissjóðum. Sjávarútvegurinn hefur líka sjálfur verið að byggja upp samkeppnissjóði sína sem hafa líka skipt gríðarlega miklu máli.

En úr því að hæstv. ráðherra nefnir þetta, að það sé engin ástæða til þess að nefna sjávarútveginn vegna þess að hann plumi sig svo vel, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, á þá kannski það sama við um landbúnaðinn? Það er ekki margt hægt að finna um landbúnaðinn í þessari byggðaáætlun. Er það til marks um það að hæstv. ráðherra telur að landbúnaðurinn eigi ekki að gegna neinu hlutverki á landsbyggðinni á næstunni? Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er óþreytandi við að segja okkur að framtíðin felist bara í sjávarútvegi og landbúnaði. Hæstv. iðnaðarráðherra leggur hins vegar fram byggðaáætlun þar sem landbúnaðar er hvergi getið.