138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:34]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Sú tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 er gagnmerkt plagg og vissulega gott innlegg í stærri stefnumótunarvinnu sem er sóknaráætlunin. Það er markvert plagg, vil ég meina, því að hér koma fram margar góðar og gagnlegar upplýsingar og ágætisþarfagreining um stöðu byggðanna í landinu, sérstöðu þeirra og sóknarfæri ýmis. Plagg sem þetta skiptir þar af leiðandi máli. Það skiptir máli í þessu stóra samhengi sem er stefnumótunin í sóknaráætluninni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir búsetuþróun í landinu því að á hverju veltur hún? Hún veltur á heildarsýn og ákveðnu heildarsamhengi.

Það má auðvitað spyrja hvernig best sé hægt að nýta plagg eins og þetta hér því að það er auðvitað alltaf mikilvægt þegar markmið eru sett fram að þeim sé fylgt eftir. Kannski hefði mátt fylgja þessari þingsályktunartillögu einhvers konar áætlun um eftirfylgni en ég treysti því að sú áætlun sé til í tengslum við sóknaráætlunina. Hvað sem öðru líður er þetta, eins og ég sagði, góð greining.

Samkvæmt þessari tillögu er ríkisstjórninni falið að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar þannig að hún verði, eins og segir í tillögunni, hluti af þeirri heildstæðu sóknaráætlun fyrir alla landshluta sem nú er í vinnslu. Áætlun þessi grundvallist á aðgerðum sem tengjast nýsköpun og atvinnuþróun sem verða felldar að annarri stefnumótun eins og samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun o.s.frv.

Þetta eru góð markmið. Ég tek heilshugar undir að samhæfing þeirrar stefnumótunarvinnu sem er í gangi fyrir byggðarlögin í landinu er mjög mikilvæg. Það markmið sem hér er sett fram, að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar, sjálfbærrar þróunar, auka samkeppnishæfni byggða og bæja landsins o.s.frv., er auðvitað mikilsvert markmið og veldur hver á heldur í því efni.

Þess vegna langar mig líka aðeins að nefna nokkur atriði sem komu upp í hugann við lestur þessarar áætlunar, sem ég vil eiginlega varpa hér fram meira sem hugvekju en þó auðvitað líka í því skyni að menn taki tillit til þess.

Það er settur fram listi yfir aðgerðir sem eru sagðar leiðir til að hrinda markmiðum byggðaáætlunar í framkvæmd. Hér eru talin upp nokkuð mörg atriði: atvinnustefna, samkeppnishæfni og klasar, heildstæð orkunýtingarstefna og fleira í sama dúr.

Ein meginforsenda þess að sóknaráætlanir og markmið byggðaáætlunar nái fram að ganga eru samgöngur. Á samgöngum byggðarlaganna veltur samkeppnisstaða þeirra. Öll almenn búsetuskilyrði og þar með félagsauður byggðanna velta á þessum lífæðum samfélaganna, eins áform um sameiningu sveitarfélaga og tækifæri í ferðaþjónustu, allt er þetta háð samgöngum. Eins og kemur glögglega fram í greinargerðum með þessari þingsályktunartillögu er beinlínis fullyrt að framtíðarbúseta á suðursvæði Vestfjarða, svo ég taki dæmi um svæði sem er mér nærtækt, velti einfaldlega á samgöngum, þ.e. á því að það takist að bæta þar samgöngur og koma þeim í viðunandi horf, að öðrum kosti sé ekki búvænlegt á þeim slóðum. Vestfirðir eru, eins og menn hafa séð sem hafa kynnt sér töflur og gögn sem fylgja þessari þingsályktunartillögu, það svæði sem sætt hefur mestri byggðaröskun og íbúafækkun allra landshluta.

Ég fór þess vegna að velta því fyrir mér í samhengi við þetta hvort ekki væri ástæða til þess að setja nú fram eina áætlunina enn — og gjóa ég nú augum á hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem þótti nú fullmikið um áætlanafarganið — að sett verði fram heildstæð samgöngustefna, beinlínis í tengslum við byggðaáætlun og sóknaráætlun, þar sem ekki yrði einungis tekið mið af einstökum byggðarlögum eða landsvæðum, sem auðvitað er þarft og ég geri ráð fyrir að þyrfti að gera, heldur líka af heildarsamhenginu og þeirri heildarsýn sem við þurfum að hafa á það hvernig við ætlum að byggja upp þetta samfélag. Þeir sem hafa lært dýralækningar eða læknisfræði eða önnur náttúruvísindi þekkja mikilvægi æðakerfisins fyrir líkamann og sú samlíking er gjörsamlega viðeigandi í þessu samhengi varðandi uppbyggingu byggðarlaganna á landsbyggðinni.

Þetta er innlegg mitt í þessa umræðu því að mér hefur satt að segja fundist vera svolítið mikið misvægi í því hvernig menn hafa notað hugtök. Það hafa komið upp ýmis tískuhugtök í þessari umræðu allri um sóknarfæri og nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Ég vil ekki gera lítið úr nýsköpunartækifærum í ferðaþjónustu eða nýsköpunarmöguleikum sem tengjast rannsóknum og þróunarstarfi ýmiss konar, en það er rétt eins og við komum inn á í umræðunni hér áðan, það eru ákveðnir lykilþættir sem ekki verður horft fram hjá, eins og sjávarútvegurinn, sem undirstöðuatvinnugrein, eins og samgöngur sem skilyrði fyrir lífvænlegri byggð.

Annað sem ég ætla aðeins að nefna meðan ég hef tíma er líka mikilvægi þess að setja fram skilgreiningu allra landsvæðanna og byggðasvæðanna á því hver sérstaða og hver sóknarfæri þeirra eru. Rétt eins og kom fram í þingsályktunartillögu sem ég og fleiri alþingismenn í Norðvesturkjördæmi fluttum hér fyrr í vetur um það að skilgreina t.d. Vestfirði sem vettvang rannsókna og þróunar í sjávarútvegsfræðum sérstaklega. Þess háttar skilgreiningu tel ég að væri þarft að taka upp í öllum landshlutum, ekki bara í sambandi við uppbyggingu atvinnulífs heldur ekki síður í sambandi við uppbyggingu rannsókna, fræðastarfs, háskólastarfs og menntastefnu í landshlutunum. Það er náttúrlega verk sem er að hluta til hafið en er samt enn þá nokkuð brotakennt. Þar vantar enn þessa heildarsýn sem ég gerði hér að umtalsefni.

Að öðru leyti vil ég nú nota tækifærið og þakka fyrir það plagg sem fylgir þessari þingsályktunartillögu vegna þess að þar koma fram margar merkar og góðar upplýsingar sem ég vona svo sannarlega að muni nýtast við áframhaldandi starf við Sóknaráætlun 20/20.