138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð náttúrlega að fá að nota mín eigin orð þar sem ég hef ekki plagg fyrir framan mig til að vísa í, en markmið ríkisstjórnarinnar í byggðamálum eru þau að halda uppi mannvænlegri byggð í þessu landi og stuðla að því að byggðirnar fái notið sérstöðu sinnar og sóknarfæra í atvinnulífi, í menningarlífi og á hinu félagslega sviði. Það held ég að allar ríkisstjórnir landsins hljóti að hafa sem sitt meginmarkmið, hvaða nafni sem þær nefnast og hvernig svo sem þær eru saman settar. Þetta er a.m.k. sú byggðastefna sem ég tel mig styðja sem þingmaður í stjórnarflokki.