138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:45]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Meginmarkmiðin með byggðaáætlunum koma ljómandi vel fram á fyrstu blaðsíðu þessarar þingsályktunartillögu. Þau eru, með leyfi forseta, „að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum, efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum“, sem síðan eru listaðar hér upp í sjö liðum og lúta að atvinnustefnu, samþættingu áætlana, eflingu stoðkerfis atvinnulífsins, nýsköpun sprotafyrirtækja, erlendri nýfjárfestingu í atvinnulífinu, eflingu ferðaþjónustu og félagsauði t.d., svo þetta sé talið upp.

Eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom ágætlega inn á í máli sínu er þetta plagg innlegg í stærri stefnumótunarvinnu sem er hafin, mjög umfangsmikil stefnumótunarvinna sem unnin er í samráði og samstarfi við sveitarfélög og byggðarlögin vítt um landið. Sú stefnumótunarvinna birtist m.a. í vaxtarsamningunum sem hafa verið og er verið að endurnýja og birtist í sóknaráætluninni, og ég hef heyrt að hv. þingmaður bíði óðfús eftir að fá að koma að þeirri umræðu í allsherjarnefnd og vænti ég þess að þess verði ekki langt að bíða nú þegar þetta ágæta plagg er komið fram.