138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líklega er hv. þingmaður að tala um safnliðina sem er skipt af fagnefndunum hér innan þingsins þannig að ráðuneytin koma í raun og veru ekki að útdeilingu þess fjár heldur hefur það komið hér beint frá þinginu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að þetta hefur eingöngu verið frá ári til árs og menn hafa ekki séð út úr verkefnum til lengri tíma en það er vegna þessa fyrirkomulags. Ég hef verið talsmaður þess að þeim fjármunum sé ekki deilt út héðan frá þinginu heldur fari þeir í að stækka potta sem gengið hafa vel, eins og t.d. vaxtarsamninginn.

Þess vegna held ég að það væri mjög æskilegt ef við gerðum það vegna þess að þá eru menn komnir í ákveðinn farveg, geta gert áætlanir hugsanlega til þriggja ára eins og oft er gert varðandi úthlutanirnar úr vaxtarsamningnum, og eru með fastara land undir fótum en í gegnum safnliðina sem útdeilt er hér árlega. Ég er sammála hv. þingmanni um það og vonandi berum við gæfu til þess að gera þetta svona, að koma þessum fjármunum inn í fastara ferli og mótaðra umhverfi sem hefur reynst vel, eins og t.d. vaxtarsamningarnir.