138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég á ekki alltaf samleið með meiri hluta manna og kannski á ég ekki samleið með meiri hluta þingmanna í þessu máli frekar en í einhverjum öðrum. Mér finnst og hefur alltaf fundist að sú byggðastefna sem rekin hefur verið á Íslandi undanfarin ár og áratugi hafi í rauninni sýnt það að við erum á villigötum og að menn þurfi að byrja að hugsa málin algjörlega upp á nýtt.

Í fylgiskjali með þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér, um stefnumótandi byggðaáætlun, kemur fram að á átta ára tímabili frá árinu 2000–2007 fjölgaði störfum hér á Íslandi um tæplega 21 þúsund. Þetta eru u.þ.b. 2.600 störf að meðaltali á ári. Frá árinu 2008 höfum við hins vegar misst 15.000 störf, u.þ.b. sex ár hafa tapast. Það er sú mynd sem blasir við og það kemur einnig fram í fylgiskjali Byggðastofnunar að sé litið til þróunarstarfa á liðnum árum sést að hún var mjög á þann veg að störf lögðust af á landsbyggðinni. Ný störf urðu til á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili, 2000–2007, líka í landbúnaði og fiskveiðum. Þetta er hinn stóri dómur yfir byggðastefnu undangenginna ára og áratuga.

Þess vegna hefði ég haldið að það væri tilefni til þess að ríkisstjórn nýrra vinnubragða kæmi með stefnumótandi byggðaáætlun þar sem kynnt væri ný hugsun og ný nálgun að því verkefni að tryggja að fólk fái að búa og geti búið þar sem það kýs að búa, að því sé gert kleift efnahagslega og félagslega að búa með fjölskyldu sinni á þeim stöðum sem það kýs sér. Ég hygg því að þessi tillaga til þingsályktunar sé að mörgu leyti byggð á misskilningi og þó að hæstv. ráðherra segi hér að hún sé að flytja ákvörðunarvaldið til fólksins og vísar þar til vaxtarsamninga — að færa valdið til fólksins er falleg hugsun — dreg ég það mjög í efa að hugur fylgi máli.

Það eru nefnilega nokkur grunnatriði sem þurfa að vera í lagi til þess að hægt sé að tala um byggðaáætlun og ef þau atriði eru ekki í lagi skiptir engu máli hvaða þingsályktunartillögu hið háttvirta Alþingi samþykkir hér. Það þarf í fyrsta lagi að vera umhverfi fyrir lífvænlega atvinnustarfsemi um allt land. Það er ekki gert öðruvísi en að stefnan í peningamálum sé skynsamleg með lágum vöxtum. Það gerist ekki öðruvísi en að send séu skýr skilaboð frá stjórnvöldum um að reynt verði með öllum ráðum að tryggja stöðugleika í undirstöðuatvinnugreinum og kippa ekki fótunum undan slíkum greinum með því að hóta eignaupptöku í formi fyrningarleiðar. Það er gert með því, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði réttilega, að tryggja góðar samgöngur. Það er líklegast eitt af frumskyldum hins opinbera fyrir utan það að tryggja innra og ytra öryggi borgaranna.

Ég sakna þess að menn skuli ekki ræða hér um það hvort hv. Alþingi þurfi ekki að taka til gagngerrar endurskoðunar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem miðar að því með skynsamlegum hætti að byggðir landsins fái að halda eftir fjármunum heima í héraði í stað þess að þeir séu stöðugt sogaðir hingað suður og síðan dreift úr hnefa og það síðan kallað að færa vald til fólksins.

Ég held að það væri skynsamlegt í nýrri byggðaáætlun að taka tillit til þess að skilgreina verksvið milli ríkis og sveitarfélaga og færa tekjustofna ríkisins yfir til sveitarfélaganna, færa fjárveitingavaldið og fjáröflunarvaldið til sveitarfélaganna frá ríkinu. Það er líklegast eitthvert stærsta byggðamál sem um getur fyrir utan hið almenna umhverfi sem ég vék að áðan.