138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um byggðaáætlun. Það er margt ágætt í henni og þar kemur fram að vaxtarsamningarnir eru áfram inni, sem ég fagna sérstaklega. Ég vil líka benda á að það sem hefur gerst í þessum byggðaáætlunum og hefur reynst best er samkomulag um það hvernig menn gera samninga við landshlutasamtökin, gera vaxtarsamninga, menningarsamninga og síðan samninga er varða atvinnuþróunarfélög. Þetta er það sem hefur skilað landsbyggðinni mestu út úr því sem við getum kallað byggðaáætlun.

Ég vil þó taka undir orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar sem talaði hér áðan. Ég held að þingheimur þurfi að nálgast þetta með annarri sýn, hvernig menn ætla að efla byggðirnar í raun og veru. Það er allt gott sem stendur í þessari áætlun, þingsályktunartillögu, en við þurfum að fara að breyta um stíl.

Það kemur í ljós, og vakin var athygli á því hér áðan, að á árunum 2000–2007 fjölgaði störfum um 21.000. Þau voru að stærstum hluta á suðvesturhorni landsins. Það er reynsla mín sem sveitarstjórnarmanns, og við þekkjum það flest hér, að þegar færa á störf út á landsbyggðina þarf oft og tíðum að færa fyrir því sérstök rök hvers vegna störfin eigi að vera úti á landsbyggðinni en ekki á suðvesturhorninu. Þannig hefur það verið í áranna rás. Því verður að breyta. Því segi ég: Við þurfum að breyta því hvernig við ætlum að vinna að því sem við getum kallað alvörubyggðaáætlun.

Ég vil líka benda á það í þessu samhengi að nú er verið að greiða svokallað veiðileyfagjald sem er 1.300 milljónir. Það er að langstærstum hluta landsbyggðarskattur. Hvaða skoðun sem við kunnum að hafa á því að greitt sé fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar vil ég benda á að þar sem menn njóta t.d. heita vatnsins, hér á suðvesturhorninu að stórum hluta og á mörgum öðrum stöðum á landsbyggðinni, er ekki greitt neitt auðlindagjald. Það er því ósamræmi þarna á milli.

Virðulegi forseti. Stærsta og mesta aðgerðin í byggðamálum er samgöngur. Ég vil í því tilefni nefna Vestfirði sérstaklega. Við þekkjum söguna á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru ekki í vegasambandi við aðra þéttbýlisstaði og aðra landshluta. Það eru staðreyndir málsins. Vegurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er algjörlega ónothæfur og ekki hægt að búa við hann enda siglir þar ferja til að þeir sem þar búa geti verið í eðlilegu sambandi við aðra landshluta. Því miður sér ekki fyrir endann á þeim hörmungum sem þar eru því að nú virðast vera áform um það hjá Vegagerðinni að fara upp á hálendið og búa þar til eins konar sumarvegi. En það sem þarf að gerast til að koma sunnanverðum Vestfjörðum í vegasamband er að breyta lögum á Alþingi. Það þarf að breyta lögum til þess að hægt sé að koma sunnanverðum Vestfjörðum í alvöruvegasamband svo að hægt sé að segja að sá byggðarkjarni búi við sambærileg skilyrði og aðrir landshlutar.

Það kemur líka í ljós ef maður les samgönguáætlunina — það vantar ekki áætlanirnar, við erum með byggðaáætlun, við erum með Sóknaráætlun 20/20, sem er eins konar gæluverkefni að mínu viti, ég skil ekkert í því, og síðan erum við með samgönguáætlun. Í henni segir, undir fyrirsögninni „Markmið um jákvæða byggðaþróun“, með leyfi forseta:

„a. Lögð verði áhersla á að við ákvörðun um forgangsröðun verkefna verði horft til uppbyggingar á einstökum svæðum í samræmi við áherslur og svæðaskiptingu sóknaráætlunar fyrir Ísland.

b. Horft verði til mikilvægis einstakra framkvæmda sem hvata til að skapa heildstæð atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði.“

Þetta eru markmið um byggðaþróun í byggðaáætlun sem kemur fram í samgönguáætlun. Samt sem áður er búið að henda Dýrafjarðargöngum út úr þeirri samgönguáætlun sem voru þar inni. Þegar menn eru að tala um byggðaáætlanir og hvernig menn ætla að efla landsbyggðina og byggðina í heild sinni hvernig stendur þá á því að það sem stendur í einni áætluninni stangast á við það sem kemur fram í annarri? Það er ekki heil brú í þessu. Það er því mjög mikilvægt að þingheimur fari öðruvísi ofan í þessa hluti en hér er gert, að henda hverri áætluninni fram á fætur annarri og svo stangast allt á.

Það gefur augaleið að Vestfirði er ekki hægt að kalla einn landshluta ef horft er til samgangna, sunnanverðir og norðanverðir Vestfirðir eru ekki tengdir saman. Það er mjög dapurlegt að vitnað sé til þess í samgönguáætlun að það þurfi að vera markmið byggðaáætlunar og síðan er það ekki framkvæmt sem sagt er í sjálfri samgönguáætluninni. Það segir sína sögu að þegar vegalengdir á milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar eru um það bil 130–140 kílómetrar þurfi mjög marga mánuði ársins, og allt of marga, að keyra um 700 kílómetra til að komast á milli þessara byggðarlaga. Það segir sína sögu að norðanverðir Vestfirðir skuli eiga miklu meiri samleið með Vesturlandi eða Norðvesturlandi en sunnanverðum Vestfjörðum. Það er þetta sem menn þurfa að horfa til og tala um. Þegar verið er að tala um byggðaáætlanir þá eru samgöngurnar ein meginstoðin sem þarf að laga.

Hér eru mörg jákvæð atriði inni eins og ég nefndi, sumt sem við höfum gert hefur skilað árangri, sérstaklega það sem hefur verið gert í samvinnu við landshlutasamtökin. Vegna aflabrests var ákveðið að fara í ákveðin verkefni og á sumum stöðum var farið í viðhaldsframkvæmdir, á öðrum í vegagerð eða samgöngumannvirki. Þegar verið er að endurskoða vegáætlun er búið að henda út þeim verkefnum sem voru þar inni vegna aðstæðna sem sköpuðust árið 2007, sem dæmi má nefna veginn um Fróðárheiði. Þess vegna skilur maður ekki þegar verið er að taka pólitískar ákvarðanir um það sem á að gera til þess að bregðast við vanda byggðarlaganna að þá er búið að henda því út. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera með þessum hætti.

Virðulegur forseti. Ef Alþingi Íslendinga vildi gera eitthvað í byggðaáætlun og sýna eitthvað í verki sem um munaði spyr ég hvort ekki sé hægt að hafa aðalstöðvar og starfsstöð Fiskistofu úti á landsbyggðinni. Hver er ástæðan fyrir því að Fiskistofa er í Hafnarfirði? Af hverju er hún ekki úti á landsbyggðinni? Ef Alþingi vildi sýna einhvern árangur af því sem verið er að gera ætti að sjálfsögðu að færa Fiskistofu út á landsbyggðina, hana átti aldrei að setja upp á höfuðborgarsvæðinu.

Ég get líka nefnt Hafrannsóknastofnunina. Við höfum ályktað um það í fleiri ár í sveitarstjórninni heima að flytja Hafrannsóknastofnun út á landsbyggðina, í mitt heimasveitarfélag, og óskað eftir rökum um það hvers vegna það er ekki hægt. Við höfum aldrei fengið þau rök. Þetta er mjög sérkennilegt. Ef Alþingi vildi sýna eitthvert frumkvæði og einhvern árangur ætti að gera þetta.

Ég nefni Landhelgisgæslu Íslands. Hvað væri t.d. því til fyrirstöðu, eins og margoft hefur verið bent á, eins og t.d. þegar varnarliðið fór frá Keflavíkurvelli, að aðalstöðvar Landhelgisgæslu Íslands fari til Suðurnesja eða norður á Ísafjörð, sem hefur líka verið bent á, þar er mjög góð aðstaða. Hafa skipaflotann þar til dæmis. Þá værum við að tala um einhverjar alvöruaðgerðir í byggðamálum í stað þess að hafa hlutina með þeim hætti að sveitarstjórnarmenn úti á landsbyggðinni þurfi nánast krjúpandi á hnjánum að koma suður til Reykjavíkur og færa fyrir því efnisleg og sterk rök að flytja eigi einhver störf út á landsbyggðina. Þannig er nú bara veruleikinn og hefur verið undanfarna áratugi. Þessu þurfum við að breyta.

Ég hræðist það mjög að þegar við förum að sameina stofnanir eins og hæstv. forsætisráðherra hefur boðað muni það hugsanlega geta bitnað mjög harkalega á landsbyggðinni vegna þess að þar eru stofnanirnar kannski með færri stöðugildum og munu renna inn í hítina í Reykjavík. Ég hræðist það mjög mikið. Ég ætla ekki að gefa mér fyrir fram niðurstöðu í þeim málum og vænti þess að jafnt verði látið yfir alla ganga en þetta hræðist ég mjög.