138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

Íslandsstofa.

158. mál
[22:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir 2. umr. fór þetta mál aftur til utanríkismálanefndar og gestir frá sex hagsmunasamtökum komu á fund hennar. Ég geri á eftir grein fyrir þeim breytingartillögum sem lagðar eru til við frumvarpið eftir 2. umr. og tel hér upp þau helstu atriði sem utanríkismálanefnd vill leggja áherslu á með þeim.

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur opinberra aðila og atvinnulífsins og verður sjálfstæð stofnun með blandaða stjórn. Það er hnykkt á því í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins að hún sé sjálfstæð stofnun þar sem sjálfstæði fjárhags og reikningshalds Íslandsstofu er áréttað og jafnframt er tekið fram að þetta verði sambærilegt fyrirkomulag og gilt hefur um Útflutningsráð hingað til.

Milli 1. og 2. umr. ræddi nefndin nokkuð um samsetningu stjórnar og lagði til að stjórnarmönnum yrði fjölgað frá því sem lagt er til í frumvarpinu, úr níu í ellefu, en eftir 2. umr. freistaði nefndin þess að ná meiri einhug um samsetningu stjórnarinnar. Eftir samráð við helstu hagsmunaaðila varð niðurstaða nefndarinnar sú að leggja til að fækka stjórnarmönnum frá því sem segir í frumvarpinu, úr níu í sjö, þannig að utanríkisráðherra skipi sjö menn, fjóra samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn sem iðnaðarráðherra tilnefni, mennta- og menningarmálaráðherra tilnefni einn og auk þess skipi utanríkisráðherra einn án tilnefningar.

Jafnframt leggur nefndin til þá breytingartillögu að þegar utanríkisráðherra skipar formann stjórnar hafi hann samráð við þá sem hafa tilnefnt í nefndina um það hver taki að sér formennsku í stjórninni.

Samhliða þeim breytingum á samsetningu stjórnar sem ég hef getið um gerum við tillögu um sérstakt ráðgjafaráð þar sem sæti eigi málsvarar helstu hagsmunaaðila á starfssviði Íslandsstofu. Ráðgjafaráðinu er ætlað að tryggja breiðari aðkomu hagsmunaaðila að stefnu Íslandsstofu og vera stjórninni til samráðs um verkefni stofnunarinnar. Nefndin leggur einnig til að vægi fagráða innan Íslandsstofu verði aukið og í því skyni er lögð til breyting þannig að sérstaklega verði kveðið á um fagráð á sviði menningarmála, umhverfismála og matvælagreina til viðbótar fagráði á sviði markaðs- og kynningarmála ferðaþjónustunnar erlendis og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Það var í frumvarpinu upphaflega.

Nefndin telur að skilgreina þurfi nánar hlutverk Íslandsstofu. Því er gerð breytingartillaga þar um og lagt til að á aðalfundi kynni stjórn Íslandsstofu stefnumótun stofnunarinnar, geri grein fyrir störfum sínum og fagráða og birti rekstraráætlanir og ársreikninga.

Nefndin fjallaði um, eins og gert var á milli 1. og 2. umr., að stofnun Íslandsstofu kallar á aðrar lagabreytingar, sérstaklega breytingar á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Nefndin hvetur til þess að hugað verði á breytingum á lögunum eins fljótt og mögulegt er.

Síðan er gerð breytingartillaga um að skerpa á orðalagi um að Íslandsstofa hafi það hlutverk að laða erlendar fjárfestingar til landsins.

Að lokum ítrekar nefndin að Íslandsstofa er ný starfsemi. Þótt hún sé byggð á grunni Útflutningsráðs er um nýja starfsemi að ræða og hana þarf að skipuleggja frá grunni.

Tvær breytingartillögur fylgja nefndarálitinu og undir það skrifa Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir, Helgi Hjörvar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ögmundur Jónasson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Ragnheiður E. Árnadóttir, með fyrirvara, og Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara.